Fréttasafn  • Hellisheiðarvirkjun

27. sep. 2009

Stjórnvöld steyta á skeri

Fréttatilkynning Samtaka iðnaðarins:

Stjórnvöld steyta á skeri

Enn verða Samtök iðnaðarins að gagnrýna harðlega vinnubrögð stjórnvalda í samskiptum við erlenda fjárfesta og beislun og nýtingu orkuauðlinda til uppbyggingar atvinnustarfsemi í landinu.

Togstreitan innan ríkisstjórnarinnar í þessum efnum er á góðri leið með að valda þjóðinni miklum búsifjum.

Fyrir rúmri viku sendu Samtök iðnaðarins frá sér ályktun um þessi efni. Þar sem skorað var á stjórnvöld að taka þessi mál „öðrum og fastari tökum. Það er of mikið í húfi til þess að hægt sé að una því að mikilvæg verkefni dragist úr hömlu eða fjárfestar hrökklist frá landinu.”

Enn kristallast þessi togstreita í skilaboðum og ákvörðunum ríkisstjórnarinnar. Búið er að ákveða að framlengja ekki viljayfirlýsingu vegna fyrirhugaðra framkvæmda við Bakka og tengdar virkjanir. Engar haldbærar skýringar eru á þessari stefnubreytingu. Unnið hefur verið innan ramma yfirlýsingarinnar af fullum krafti og í nánu samráði við ríkisstjórnir á hverjum tíma. Nú skal hins vegar snúið við blaðinu í þeim tilgangi að gefa öðrum kost á nýta orkuna. Staðreyndin er sú að það eru engir aðrir sem hafa í neinni alvöru sett fram raunhæfar hugmyndir um nýtingu orkunnar. Hugmyndir þar sem vilji og geta til framkvæmda fylgja máli. Eini fjárfestirinn sem það hefur gert er Alcoa, fjárfestir sem hefur þegar sýnt og sannað að hann hefur getu og vilja til framkvæmda.

Það er ekki einleikið hvernig skoðanaágreiningur innan ríkisstjórnarinnar ætlar að spilla þessu máli og því miður trúlega öðrum þar sem erlendir fjárfestar og beislun og nýting orkuauðlinda kemur við sögu. Hætt er við að hér stefni í mikið óefni sem mun vinda upp á sig og spilla fyrir því að erlendir fjárfestar líti á Ísland sem heppilegan stað til þess að byggja upp atvinnustarfsemi.

Ekki bæta úr skák orð forsætisráðherra þar sem boðaðir eru orku-, umhverfis- og auðlindaskattar. Það mun ekki hvetja til þess að græn orka verði nýtt á Íslandi til góðs fyrir alla jarðarbúa og okkur til hagsbóta.

Samtök iðnaðarins skora enn einu sinni á ríkisstjórnina að leggja sitt af mörkum til þess að laða að erlendar fjárfestingar á öllum sviðum og þar með taldar þær sem leiða til hagnýtingar orkuauðlinda landsins.

-------

Fréttatilkynningin á pdf. formi.