Fréttasafn  • Prósentumerki

6. okt. 2009

Könnun á ástandi og horfum

Starfsmenn SI hafa á gert könnun meðal stærstu félagsmanna sinna um ástand og horfur. Svör bárust frá 140 félagsmönnum.

Störfum hefur fækkað um 632 frá upphafi árs og til áramóta er búist við annarri eins fækkun og hefur þá starfsmönnum fækkað um 13,5% frá upphafi til loka árs.

Almennt eru ekki stór áföll varðandi tapaðar útistandandi kröfur sem skýrist fyrst og fremst af meira eftirliti en á þessu eru undantekningar og dæmi um fyrirtæki sem óttast að tapa allt að 20% af veltu ársins.

Þeir sem leitað hafa til bankastofnanna um fyrirgreiðslu er flestir jákvæðir en margir nefna ákvarðanafælni. Starfsmenn banka virðast ekki hafa umboð frá stjórn og eigendum til að taka nauðsynlegar ákvarðanir. Kvartað er undan því að vonlausum fyrirtækjum sé haldið á floti á meðan lítið sé gert fyrir fyrirtæki með góða rekstrarsögu. Bankarnir ráðleggja kennitöluflakk.  

Svört atvinnustarfssemi er meira áberandi en áður og eftir því sem fyrirtækin eru minni þeim mun meira áberandi eru nótulaus viðskipti.

Þegar spurt er um ráð til stjórnvalda sem gætu komið atvinnulífinu til góða nefna flestir lækkun vaxta, að koma bönkunum af stað, afléttingu gjaldeyrishafta og styrkingu krónunnar auk opinberra framkvæmda. Einnig er nefnt að opinberir aðilar geti í enn meira mæli notað íslenskar vörur og þjónustu.   

Tónlistahúsið er tekið sem dæmi um framkvæmd þar sem hægt væri að nýta betur íslenskar vörur. Í húsinu eru t.d. yfir 1000 hurðir og bara sá pakki skiptir máli fyrir íslensk fyrirtæki. Annað dæmi eru gólfefni í húsið. Hægt væri að framleiða öll gólfefni úr íslensku blágrýti með íslenskri orku og vinnuafli í stað innfluttrar vöru.