Fréttasafn  • Alþingi

13. okt. 2009

Umhverfisráðherra og lögin

Hart hefur verið deilt á umhverfisráðherra fyrir ákvörðun hans um að fella úr gildi ákvörðun Skipulagsstofnunar um Suðvesturlínur. Efast hefur verið um lögmæti og réttmæti þeirrar ákvörðunar m.a. af Samtökum iðnaðarins.

Umhverfisráðherra fellur á formsatriðum og réttri stjórnsýslu

Ef rýnt er í nokkur atriði í tengslum við úrskurð ráðherra frá því 28. september 2009 um að fella úrskurð Skipulagsstofnunar frá 25. mars 2009 um að ekki skuli fara fram sameiginlegt umhverfismat á framkvæmdum sem tengjast álveri í Helguvík kemur fljótt í ljós að á honum eru svo miklir annmarkar að allar líkur benda til þess að hún sé ólögmæt.

Það væri því rétt af ráðherra að afturkalla ákvörðun sína án frekari málalenginga.

Kærur of seint á ferðinni

Við blasir að kærur Landverndar og Náttúruverndarsamtaka Íslands vegna úrskurðarins berast ráðherra of seint. Kærufrestur er einn mánuður frá ákvörðun Skipulagsstofnunar. Hún var tekin 25. mars 2009 og því rann kærufresturinn út 25. apríl. Kærurnar eru mótteknar í ráðuneytinu og stimplaðar þar þann 29. apríl eða fjórum dögum eftir að kærufresturinn rann út. Breytir þá engu þótt bréf beggja kærenda séu dagsett 24. apríl. Með réttu átti því að vísa kærunum frá á grundvelli laga um opinbera stjórnsýslu. Það gerði ráðherra hins vegar ekki.

Úrskurðað löngu eftir að frestur var úti

Í lögum um umhverfismat er settur frestur sem gildir um hve langan tíma ráðherra hefur til þess að úrskurða um ákvörðun Skipulagsstofnunar. Sá frestur er tveir mánuðir frá því að hin kærða ákvörðun er tekin. Frestur ráðherra til þess að úrskurða í málinu rann því út að lögum 25. júní sl. Ráðherra lét engu að síður rúma þrjá mánuði líða fram yfir frestinn þar til hann felldi úrskurðinn úr gildi.  

Lög og reglur ber að virða

Hér hefur verið bent á brot á lögum og afar vonda stjórnsýslu af hendi ráðherra sem að öðru jöfnu ætti að vera til fyrirmyndar í umgengni sinni um lög um umhverfismat. Auk þessa má benda á að úrskurðurinn er kveðinn upp án þess að öllum þeim sem málið varðar verulega og hefur íþyngjandi áhrif á, s.s. Norðurál, er ekki gefinn kostur á að gæta hagsmuna sinna.

Traust, samvinna og stöðugleiki

Málsmeðferð ráðherra fer á svig við lög en hitt er ekki síður alvarlegt að ekki virðist hægt að reikna með samfellu og staðfestu í orðum og athöfnum stjórnvalda, stofnana og ráðherra. Í þessu sambandi er rétt að benda á að þegar árið 2006 fjallaði Skipulagsstofnun ítarlega um sameiginlegt umhverfismat vegna framkvæmda í Helguvík. Niðurstaðan varð sú að nýta ekki heimild til sameiginlegs mats vegna álversins. Þegar mat Skipulagsstofnunar á umhverfisáhrifum álvers í Helguvík lá fyrir árið 2007 var niðurstaðan kærð og sameiginlegs mats krafist. Niðurstaða þáverandi umhverfisráðherra varð sú í apríl 2008 að ekki væru forsendur til sameiginlegs mats. Nú bregður hins vegar svo við í tengslum við línulagnir að Helguvík að ráðherra leggur lykkju á leið sína til þess að láta enn einu sinni reyna á sameiginlegt umhverfismat. Þetta getur ekki gengið svona. Atvinnulífið verður að geta treyst á þær stofnanir sem að lögum fara með tiltekin verkefni. Það verður sömuleiðis að vera hægt að treysta því að þeir ráðherrar sem fara með málefni þeirra og úrskurða jafnvel um ákvarðanir sem þær taka virði lög og reglur, gæti sanngirni og meðalhófs í ákvörðunum sínum og láti alls ekki pólitískar skoðanir og markmið sín glepja sér sýn við meðferð þess valds sem þeim er falið að lögum.