Fréttasafn



  • Sprotaþing 2009

23. okt. 2009

Hátækni- og sprotaþing 2009

HÁTÆKNI- OG SPROTAÞING 2009

Framlag hátækni- og sprotafyrirtækja til endurreisnar

Föstudaginn 6. nóvember, kl. 12.45-17.15

CCP, Grandagarði 8

Í samstarfi Hátækni- og sprotavettvangs, þingflokka stjórnmálaflokka, ráðuneyta iðnaðar, utanríkis, mennta- og fjármála, háskóla og aðila stoðkerfis og atvinnulífs verður efnt til Hátækni-og sprotaþings 2009 föstudaginn 6. nóvember nk. Á þinginu verður fjallað um stöðu og starfsskilyrði hátækni- og sprotafyrirtækja á Íslandi.

Hátækni- og sprotavettvangur er samstarfsverkefni Samtaka iðnaðarins, Samtaka sprotafyrirtækja, Samtaka íslenskra líftæknifyrirtækja, Samtaka upplýsinga-tæknifyrirtækja og ráðuneyta iðnaðar, utanríkis, mennta- og fjármála.

Markmið vettvangsins er að vinna að vegvísi til framtíðar um eflingu og uppbyggingu hátækni- og sprotafyrirtækja á Íslandi.

Meginhlutverk samstarfsvettvangsins er að vinna á markvissan hátt að því að bæta starfsskilyrði og stuðningsumhverfi hátækni- og sprotafyrirtækja. Stjórn verkefnisins, skipuð af samningsaðilum, skal setja sér metnaðarfull en raunhæf markmið um vöxt hátækniiðnaðar á næstu 10 árum og gera tillögur að aðgerðum til að ná fyrrnefndum markmiðum.

Hátæknifyrirtæki eru, samkvæmt skilgreiningu OECD, skilgreind sem fyrirtæki sem skráð eru innan þeirra fimm ISAT atvinnugreinaflokka sem að meðaltali leggja mest til rannsókna- og þróunarstarfsemi sem hlutfall af veltu. Miðað er við að árlegur þróunarkostnaður hátæknifyrirtækja sé að jafnaði yfir 4% af veltu og sú skilgreining er notuð hér óháð því í hvaða atvinnugrein fyrirtækið starfar.

Sprotafyrirtæki eru skilgreind sem hátæknifyrirtæki og eru venjulega sprottin upp úr rannsókna- eða þróunarverkefnum einstaklinga, þróunarhópa, háskóla, rannsóknastofnana eða annarra fyrirtækja og byggjast á sérhæfðri þekkingu, tækni eða öðru nýnæmi. Miðað er við að árlegur þróunarkostnaður sprotafyrirtækja sé að jafnaði yfir 10% af veltu. Hátæknifyrirtæki hætta að teljast sprotafyrirtæki þegar þau hafa náð árlegri veltu sem nemur einum milljarði ísl. kr. eða þegar þau hafa verið skráð á aðallista kauphallar.

Samstarf hagsmunasamtaka, stjórnvalda og annarra stuðningsaðila

Viðfangsefni í starfs- og stuðningsumhverfi hátækni- og sprotafyrirtækja eru þess eðlis að þau krefjast samstarfs hagsmunasamtaka fyrirtækjanna, stjórnvalda og annarra stuðningsaðila. Slíkt samstarf hefur verið með ýmsum hætti hér á landi á undanförnum árum en með „Hátækni- og sprotavettvangi” er stefnt að því að gera það mun skilvirkara með framangreind markmið að leiðarljósi.

Ef vel er að verki staðið getur sú uppbygging, sem þarna er lýst, orðið ein meginstoð hagvaxtar á Íslandi á komandi árum og jafnframt orðið sú leið sem best getur tryggt lífeyrissjóðum og öðrum fjárfestum háa ávöxtun eigna sinna í framtíðinni. Grunnur að þessari uppbyggingu felst í að á Íslandi geti fjölbreytt flóra arðvænlegra hátækni- og sprotafyrirtækja vaxið og dafnað í starfsumhverfi í fremstu röð.

Sjá dagskrá hér