Fréttasafn



  • Icelandic Gaming Industry

3. nóv. 2009

IGIA10 Fyrsta íslenska leikjagerðar samkeppnin

Þann 5.nóv nk. kl. 20:30 fer af stað fyrsta árlega íslenska samkeppnin í tölvuleikjagerð, IGIA10, í Hugmyndahúsinu, Grandagarði 2. Keppnin er haldin af samtökum leikjaframleiðenda á Íslandi (IGI) og er afrakstur vinnu sjálfboðahóps samtakanna undanfarna mánuði. Við sama tækifæri verður einnig mánaðarlegur hittingu samtakanna þar sem Ben Bohn, framleiðandi hjá CCP, fjallar um framleiðsluferli þrívíddargrafíkur í tölvuleikjum.

Þátttaka í IGIA10 er öllum opin og að kostnaðarlausu. Ekki er ætlast til að þátttakendur sendi inn fullkláraðan leik, heldur má skila inn svo til hverju sem er og á hvaða stigi sem er. Við val á sigurvegara er horft til allra mögulegra þátta við heildarmyndina sem skapar tölvuleikinn. Góð hugmynd á byrjunarstigi getur því jafnvel verið meira virði en fullunnin vara. Er það von skipuleggjenda að sem flestir geti nýtt sér þetta tækifæri til að kynnast leikjagerð og jafnvel skapa sér ný tækifæri í framhaldi af því. Með þetta að sjónarmiði verða ókeypis kynningar í hverjum mánuði keppninnar, þar sem sérfræðingar innan geirans mæta og kynna fyrir fólki ákveðna þætti tölvuleikjagerðar. Því ætti fólk á öllum aldri og með hvaða bakgrunn sem er að geta tekið þátt og lært ýmislegt um tölvuleikjagerð jafnóðum, óháð því hvort viðkomandi hefur í dag einhverja þekkingu á þessu sviði eður ei.

Laugardaginn 7.nóvember kl: 14:00-16:00, einnig í Hugmyndahúsinu, verður fyrsta slíka kynningin. Þar verður farið betur yfir heildarferlið við tölvuleikjagerð og það tengt saman við ferli keppninnar, til að koma fólki af stað. Keppninni lýkur ekki fyrr en í lok mars 2010 og því nægur tími til að kynna sér málið vel og vinna að sinni hugmynd. Einnig skal tekið fram að skráning er opin alveg fram að lokum keppninnar og fylgir henni engin skuldbinding um skil. Er því hvatt til þess að allir sem hafa áhuga skrái sig og kynni sér tölvuleikjagerð, jafnvel þó “rétta hugmyndin” komi ekki fyrr en á lokasprettinum.

Sigurvegari keppninnar hlýtur glæsilega HP Touchsmart IQ522sc margmiðlunartölvu með snertiskjá frá Opnum Kerfum (www.ok.is), námsvist sér að kostnaðarlausu á haustönn 2010 hjá Viðskiptasmiðjunni (www.klak.is/vidskiptasmidjan) og ýmsan frekari stuðning frá samtökunum til að vinna að vinningsleiknum. Má því segja að viðkomandi hafi aðgengi að helstu sérfræðingum landsins í tölvuleikjagerð sem og frumkvöðlastarfsemi og sprotafyrirtækjum. Því er um að ræða stórkostlegt tækifæri til að kynnast tölvuleikjagerð, koma hæfileikum sínum á framfæri, öðlast tengingar innan tölvuleikjabransans á Íslandi og vinna svo úr sinni hugmynd fullkláraðan leik og stofna jafnvel nýtt sprotafyrirtæki!

Til að skrá sig er nóg að fara á heimasíðu samtakanna, www.igi.is , velja þar “Sign Up” og að því ferli loknu bæta sér í hópinn “IGIA10”. Tekið skal fram að allt efni á heimasíðunni er á ensku, sem er vinnumál samtakanna, enda um fjölbreytta samsetningu þjóðernis að ræða innan þeirra.

Samtök leikjaframleiðenda á Íslandi (IGI) eru nýlega stofnuð grasrótarsamtök undir hatti Samtaka iðnaðarins, samsett af fyrirtækjum, áhugamönnum og sérfræðingum í tölvuleikjagerð á Íslandi. Í dag eru þar um tugur fyrirtækja með rúmlega 300 manns starfandi á Íslandi, alþjóðlegar skrifstofur og samstarfsaðila.Gríðarlegur vöxtur er innan geirans og stefna sameiginlegar tekjur í rúmlega 10 milljarða króna fyrir árið 2009. Velgengni CCP er mörgum kunn, en af öðrum fyrirtækjum innanborðs má nefna Betware sem þróar lausnir fyrir happadrættisleiki og MindGames sem þróar leiki stýrða af heilabylgjum spilarans. IPhone leikjaþróun hefur einnig farið vaxandi undanfarið og má þar m.a finna Dexoris, Ými, On the Rocks og Gogogic sem einnig þróar Facebook fjölspilunarleiki.

Erlend fyrirtæki hafa einnig sýnt Íslandi, sem og IGI, áhuga undanfarið og má t.d. nefna finnska fyrirtækið Sauma Technologies sem opnaði skrifstofu hér í byrjun árs og vinnur að sínum fyrsta stóra fjölspilunarleik. IGI eru einnig í samstarfi við gervigreindarsetur HR, CADIA, en til stendur að stórauka samstarf samtakanna og menntastofnana.