Víðtæk ábyrgð byggingarstjóra
Með dómi Hæstaréttar fimmtudaginn 5. nóvember sl. var byggingarstjóri dæmdur til að greiða íbúðareigendum skaðabætur vegna galla á fjöleignarhúsi.
Í dóminum, sem var fjölskipaður, var því slegið föstu að á byggingarstjóra hvíli ekki aðeins að sjá til þess að byggt sé í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög og reglugerðir, heldur einnig skylda til að hafa yfirumsjón og eftirlit með byggingarframkvæmdum sem hann stýrir, þar á meðal að iðnmeistarar, sem koma að verkinu fyrir hans atbeina, sinni skyldum sínum og að framkvæmdin sé tæknilega og faglega fullnægjandi, sbr. 3 mgr. 51. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.
Af hálfu byggingarstjóra var því m.a. haldið fram að hann bæri ekki faglega ábyrgð á því sem kynni að hafa farið úrskeiðis við byggingu hússins. Ábyrgð byggingarstjóra tæki eingöngu til þess að byggt væri í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög og reglugerðir. Ábyrgðin næði ekki til faglegra mistaka starfsmanna eða verktaka á vegum byggjanda. Hæstiréttur féllst ekki á þessa röksemd hans í málinu.
Niðurstaða Hæstaréttar í þessu máli er í samræmi við niðurstöðu réttarins í máli nr. 267/2005 frá 20. desember 2005.
Sjá nánar dóm Hæstaréttar frá 5. nóvember sl.
http://www.haestirettur.is/domar?nr=6185