Einfalt umhverfisstjórnunarkerfi
Þeir sem vinna með umhverfismál velta stundum fyrir sér af hverju umhverfisvottanir fyrirtækja eru ekki vinsælli hérlendis en raun ber vitni. Ein ástæðan er talin vera sú að íslensk fyrirtæki eru mörg hver lítil og kerfin sem í boði eru henta betur stærri fyrirtækjum. Bæði ISO 14001 og Svanurinn hafa nokkuð stífar kröfur um skráningar og innra skipulag í fyrirtækinu sem vex í augum margra.
Verkefninu EMS-light er ætlað að mæta þörf á einföldu umhverfisstjórnunarkerfi, sem hjálpar til við aðgerðir sem skila umhverfisávinningi án þess að því fylgi of mikil skriffinnska. Verkefnið var unnið fyrir norrænu ráðherranefndina og tekur mið af þörfum lítilla fyrirtækja í litlum samfélögum.
Fjögur fyrirtæki tóku þátt í verkefninu og fengu afhenta frumútgáfu af kerfinu. Rágjafar aðstoðuðu við söfnun gagna og að skilgreina hvað ætti að fara inn í kerfið. Haldin var málstofa við upphaf verkefnis og aftur í lokin. Ábendingum notenda um það sem betur mætti fara var komið á framfæri og kerfið aðlagað og uppfært. Á lokafundi verkefnisins kom fram ánægja þeirra sem prófað höfðu kerfið. Það hafði reynst vel við að halda utan um upplýsingar og til þess að fá yfirsýn yfir tölur og gögn sem annars eru ekki teknar saman í fyrirtækjum. Mestu máli skiptu ýmsar breytingar sem gerðar voru á verklagi. Þegar sjónum var beint að því hvað í starfseminni hefði áhrif á umhverfið komu strax fram tillögur að bættu verklagi. Frumlegar hugmyndir komu fram um hvernig mætti minnka sorpmagn t.d. með endurnotkun umbúða, bættri meðhöndlun rekstrarafganga og svo minni notkun á ýmsum hráefnum. Dæmi voru um að vatnsnotkun minnkaði. Nokkrir höfðu hugað að dreifingu á vörum og skipulagi þjónustu, gert það skilvirkara og minnkað þannig losun gróðurhúsalofttegunda.
Hægt er að nálgast kerfið hjá Samtökum iðnaðarins.
Góð fyrirmynd í umhverfismálum
Kaffitár tók þátt í EMS-light verkefninu til að ná betur utan um skráningar á umhverfisþáttum eins og orkunotkun og sorpi. Fyrirtækið vill vera góð fyrirmynd í umhverfismálum og sýna í verki að flokkun getur verið árangursrík. Sorpmagn Kaffitárs minnkaði um 25-35% við aðgerðirnar. Dæmi um hvernig Kaffitár minnkaði sorpmagn og umbúðir:
- Bylgjupappír er flokkaður og endurnýttur
- Viðskiptavinir geta keypt kaffidrykki í eigin bolla sem þeir taka með sér
- Plastílát undan hráefnum sem notuð eru endurnýtt þegar hægt er
- Meðlæti úr eldhúsi er dreift til kaffihúsa í margnota plastílátum Bílar
- Kaffitárs eru þvegnir með umhverfisvænu þvottaefni
- Þvottaefni eru umhverfisvæn
- Hreinsiefni eru úr þykkni og sett á margnota brúsa
- Sorp er flokkað í gæðapappír, dagblöð & tímarit, gler, lífrænan úrgang, málm og annan úrgang
- Fyllsta öryggis er gætt í umgengni við umhverfisspillandi efni
- Viðskiptavinir eru hvattir til nota fjölnota bakka undir götumál og endurnýta
- Viðskiptavinum er boðinn kaffikorgur til að jarðvegsbæta beðin í garðinum
Samstarf við aðstandendur verkefnisins var með besta móti og ánægjulegt og lærdómsríkt að kynnast öðrum þátttakendum verkefnisins. Starfið blómstrar í dag og mörg verkefni framundan í umhverfisnefndinni sem er samsett úr starfsmönnum allra deilda.
Auðskiljanlegt kerfi sem eykur eftirfylgni
MS-Selfossi hefur haldið utanum „grænt bókhald“ meira eða minna síðan 1998. EMS-Light var vel þegið verkfæri til að halda utan um þessar skráningar. Þeirra reynsla er að betra sé að safna saman upplýsingar frá „raunmælingum“ í stað þess að taka upplýsingar frá reikningum. Oft þarf að færa milli mánaða ef reikningar eru notaðir.
MS-Selfossi heldur utan um eftirfarandi þætti:
- Vatnsnotkun (heitt og kalt vatn)
- Úrgang (kg)
- Þvottaefnanotkun
- Eldsneytisnotkun
- Rafmagnsnotkun
Að mati MS-Selfoss eru kostir EMS-light þeir að kerfið er auðskiljanlegt og eykur eftirfylgni með umhverfisþáttum sem að auki verður reglulegt. Kerfið gefur einnig aukinn möguleika á að hægt sé að bregðast strax við frávikum. Árlegt samantekt er mjög auðveld og upplýsingaflæði til stjórnenda eykst. Helsti ókostur kerfisins er að það er hannað fyrir minni fyrirtæki.
Jákvæð áhrif á fyrirtækjamenninguna
Rannsóknarþjónustunni Sýni ehf leist í upphafi vel á EMS light Nordic og þann möguleika að nota hugbúnaðinn sem fylgdi til þess að fá raunverulegar mælingar á þeim þáttum sem þau vildu taka inn í verkefnið. Fljótlega hófu starfsmenn að skilgreina hvaða þætti vert væri að skoða og má þar nefna rafmagn, aðkeypta flutninga, pappír, hreinsiefni og sorplosun. Það eitt að setjast niður saman og ræða þessi málefni vakti starfsmenn til umhugsunar og upp komu margar góðar hugmyndir sem leiddu til minni notkunar ýmissar rekstrarvöru. Helsti ávinningur af vinnunni hefur verið jákvæð áhrif á menningu fyrirtækisins en það er skoðun starfsmanna Sýnis að öll fyrirtæki hafi mikla skyldu gagnvart umhverfinu og geti með þessu móti lagt sitt af mörkum til umhverfisverndar. Þau binda einnig vonir við að stutt sé í að árangurinn verði einnig mælanlegur í krónum.