Fréttasafn



  • Nýbyggingar

10. des. 2009

Botninum náð á fasteignamarkaðinum

Margt bendir til að þess sé skammt að bíða að markaðurinn með íbúðahúsnæði fari að taka við sér aftur. Skv. nýrri skýrslu VSÓ eru 1850 ónýttar nýjar íbúðir sem eru fokheldar eða lengra komnar á höfuðborgarsvæðinu. Inni í þeim tölum eru einbýlishús og aðrar eignir sem verið er að byggja til eigin nota og koma því ekki til sölu. Því má áætla að innan við 1500 nýjar íbúðir séu til sölu sem er u.þ.b. áætluð ársþörf á markaðinum.

Sala á íbúðahúsnæði hefur verið mjög treg undanfarin tvö ár. Að meðaltali hefur verið þinglýst ríflega 50 kaupsamningum á viku í ár en að meðaltali var á árunum 2005-2007 þinglýst um 200 samningum. Ástæður þessa samdráttar eru ýmsar svo sem fjárhagserfiðleikar, atvinnuleysi og takmarkaður aðgangur að lánsfé en síðast en ekki síst spár um lækkanir á fasteignaverði. Því er uppsöfnuð þörf fyrir fjárfestingu í íbúðahúsnæði.

Leigumarkaðurinn hefur sl. tvö ár verið mjög líflegur. Fyrstu 11 mánuði þessa árs var þinglýst tæplega 10 þúsund samningum borið saman við tæplega 7 þúsund á sama tíma í fyrra og meðaltal áranna 2005-2007 er innan við 5 þúsund samningar. Aukningin frá meðaltali 2005-2007 er 105%. En nú er svo komið að framboðið leiguhúsnæði er orðið takmarkað og leiguverð þar með á uppleið sem leiðir til þess að fleiri fara að skoða þann möguleika að kaupa í stað þess að leigja.

Eitt merki um aukinn áhuga á fasteignamarkaðinum eru auglýsingar fasteignasala þar sem óskað er eftir eignum á skrá.

Í ljósi lækkandi innlánsvaxta, hækkandi fjármagnstekjuskatts, nýrra laga um takmörkun á innistæðutryggingum og takmarkaðra fjárfestingakosta þá er ekki ólíklegt að ýmsir fari að líta á fjárfestingu í steinsteypu sem álitlegan fjárfestingakost.