Fréttasafn



  • Helgi Magnússon

14. des. 2009

Skattahækkanir dýpka kreppuna

Eftir Helga Magnússon

STÓRTÆK áform ríkisstjórnarinnar um mestu skattahækkanir síðustu áratuga brenna nú á okkur Íslendingum.

Ef við stóraukum skatta í kreppu þá lengjum við kreppuna og dýpkun hana. Það er mjög hættulegt að þyngja um of skattbyrði fólks og fyrirtækja á tímum síminnkandi ráðstöfunartekna. Keðjuverkunaráhrifin í ranga átt eru mikil og mér er til efs að stjórnvöld hafi metið þau til fulls í útreikningum sínum.

Það er löngu sannað að miklar hækkanir á neyslusköttum minnka neyslu á þeim vörum sem skattlagðar eru – og þar með skila skattar sér ekki til hins opinbera eins og vonir standa til. Þetta á við um vörugjöld og hækkaðan virðisaukaskatt sem nú er verið að leggja á iðngreinar eins og drykkjarvöruframleiðslu, sælgæti o.fl. og þetta gildir einnig um hækkaða gjaldtöku á tóbak, áfengi og eldsneyti. Hægt er að halda því fram að um aðför að íslenskum iðnaði sé að ræða – á tímum þegar Íslendingar þurfa mest á eflingu iðnaðar að halda.

Ný störf skila skatttekjum

Núverandi stjórnvöld ætla að gjörbreyta skattakerfinu með lífskjarajöfnun að yfirskini. Ég er ósáttur við að þau ætli að jafna kjörin í þjóðfélaginu niður. Það gera þau með því að dýpka kreppuna með allt of þungum sköttum ofan á kjararýrnun og stórversnandi afkomu í atvinnulífinu. Það dregur úr framkvæmdavilja og frumkvæði fólks og fyrirtækja. Ég vil fremur sjá vaxtarstefnu og aukna verðmætasköpun sem skilar auknum tekjum í sameiginlega sjóði en ekki kyrkjandi ráðstafanir sem draga okkur niður sem þjóð í stað þess að stýra okkur upp úr kreppunni. Ég vil fremur sjá ný störf sem skila skatttekjum og draga úr kostnaði við atvinnuleysisbætur heldur en að fyrirtæki neyðist til að segja upp fólki vegna ósanngjarnrar og íþyngjandi skattlagningar.

Ríkisstjórnin ætlar að vinna hratt að þessum skattabreytingum því hún veit ekki fremur en aðrir hve langan tíma hún hefur til að vinna þessa hugmyndafræðilegu sigra sína.

Árás á skattkerfið

Hætt er við að fyrirhugaðar breytingar muni aflaga flest það sem tekist hefur að færa til betri vegar í skattamálum á Íslandi síðustu 20 árin. Hvað halda menn að Samtök iðnaðarins hafi lagt mikla vinnu í að fá vörugjöld felld niður í iðnaði? Það var áratuga verkefni – og nú eru vörugjöldin komin til baka. Það tók mikið á að fá eignarskatta fellda niður, en þeir eru úreltur skattstofn sem tekur ekki mið af greiðslugetu eða afkomu. En þeir eru að koma aftur undir því gildishlaðna heiti „auðlegðarskattar“. Áralöng barátta skilaði lækkun tekjuskatta á fólk og fyrirtæki en nú er hækkunarferlið komið á fulla ferð. Menn sættust á fjármagnstekjuskatt á sínum tíma þegar hann var hóflegur, 10%. En nú er hann á leið í 18%, þ.e. 80% hækkun frá miðju þessu ári. Á næsta ári er ætlunin að innleiða orku- og kolefnaskatta sem munu væntanlega trufla fjárfestingar og eðlilega framvindu í iðnaði, einmitt á tímum þegar Íslendingar þurfa á öllu að halda til að efla atvinnulífið og draga úr atvinnuleysi. Atvinnuleysið er dýrt og reikningurinn sendur atvinnulífinu með hækkuðu tryggingargjaldi.

Þessu til viðbótar er verið að boða margháttaðar breytingar á skattalegri meðferð arðs sem yrði til að fæla innlenda og erlenda fjárfesta frá þátttöku í atvinnulífi á Íslandi. Auk þess er víða verið að auka flækjustigið í skattaframkvæmd. Einföldum skattareglum og einfaldri skattaframkvæmd er fórnað fyrir flókið fyrirkomulag. Vandséð er að þessar breytingar muni skila ríkissjóði auknum skatttekjum en þær munu gera alla framkvæmd erfiðari jafnt fyrir skattþegna og ríkisvaldið.

Ástæða er til að óttast frekari aðför að skattakerfinu.

Draga þarf úr ríkisútgjöldum

Brýnt er að löggjafinn og hagsmunaaðilar í þjóðfélaginu komi sér saman um leiðir til að leysa vanda ríkissjóðs án þess að umturna skattakerfinu og án þess að sparnaður bitni enn frekar á velferðar- eða menntakerfinu.

Stjórnvöld halda því fram að þeir sem vilja sparnað í ríkisútgjöldum séu á móti menntun, fátækum og sjúkum – séu á móti velferðarkerfinu. En þetta er ekki rétt.

Ég vil draga enn frekar úr útgjöldum ríkissjóðs og það strax á næsta ári. Það þarf hagræðingu í rekstri hins opinbera – rétt eins og atvinnulífið hefur þurft að gera. Við erum ekki á móti velferðarkerfinu og við styðjum menntun og höfum sýnt það í verki hjá Samtökum iðnaðarins. Það er unnt að draga verulega úr ríkisútgjöldum án þess að ráðast á velferðina og menntakerfið.

Smáþjóð í vanda

Við Íslendingar þurfum nú að horfast í augu við það að við erum smáþjóð í vanda og við verðum þá líka að hætta að haga okkur eins og stórþjóð. Við þurfum að minnka yfirbygginguna, við þurfum að hætta að slá um okkur með stórmennsku. Komum okkur niður á jörðina og látum af því stærilæti sem margir telja að sé drifið áfram af minnimáttarkennd smáþjóðar.

Verkefnið er að draga úr ríkisútgjöldum til samræmis við aðstæður í stað þess að hlekkja þjóðina í áralanga fjötra skattpíningar sem mun ekki skila okkur öðru en fleiri kreppuárum.

Þá er brýnt að menn geri sér ljóst að boðaðar fyrirvaralausar skattkerfisbreytingar munu valda glundroða við skattaframkvæmd á næsta ári.

Fórnum ekki einföldu skattkerfi fyrir vanhugsaða hugmyndafræði.

Höfundur er formaður Samtaka iðnaðarins