Hægan nú
Í langan tíma hefur staðið yfir undirbúningur að því að reisa gagnaver á Suðurnesjum. Verne Holding stendur að verkefninu. Samtök iðnaðarins hafa stutt með ráðum og dáð að af þessu verði. Verkefnið er kærkomin fjárfesting á nýju sviði iðnaðar og þjónustu og ekki veitir af slíku um þessar mundir. „Grátlegt er að sjá í hvaða farveg umræða um málið er að falla,“ segir framkvæmdastjóri SI.
„Samtök iðnaðarins tóku því líka fagnandi þegar Magma Energy fjárfesti hér á landi. Í báðum þessu tilvikum bregður svo við að á síðustu metrum þeirra er reynt að bregða fæti fyrir verkefnin og þeir sem að þeim standa gerðir tortryggilegir. Annað hvort vegna þess að þar séu á ferð vafasamir útlendingar eða íslenskir aðilar sem ekki megi semja við af einhverjum ástæðum,“ segir Jón Steindór Valdimarsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.
„Um leið iðnaðarráðherra, Katrín Júlíusdóttir, lagði fram og mælti fyrir frumvarpi til laga um heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ stigu margir á stokk, innan og utan þings og innan og utan stjórnarflokkanna. Erindi þeirra var helst það að nokkrir af eigendum Verne Holdings ehf. væru þeim ekki þóknanlegir og þess vegna ekki rétt að gera við þá fjárfestingarsamning þann sem frumvarpið gerir ráð fyrir.“
Einn þeirra hefur unnið sér það til óhelgi að hafa tekið virkan þátt í störfum annars stjórnarflokksins. Það virðist engu skipta að hann hefur verið farsæll frumkvöðull og fjárfestir um margra ára skeið. Annar er athafnamaður sem jafnan er talinn í hópi svokallaðra útrásarvíkinga.
Jón Steindór segir „að samningurinn sem frumvarpið gerir ráð fyrir gangi síst lengra í tilslökunum en hliðstæðir samningar sem gerðir hafa verið undanfarna áratugi. Það hefur legið fyrir frá upphafi hverjir standa að verkefninu og hverjir fjármagna það. Það er ekki hlutverk stjórnvalda eða þingheims að draga fjárfesta í dilka að geðþótta sínum og leyfa samninga við suma en aðra ekki. Þar verða að gilda hlutlæg sjónarmið. “
„Það er sérkennilegt“ segir Jón Steindór „hve margir beina spjótum sínum að iðnaðarráðherra í þessu máli og reyna að gera það tortryggilegt. Ekki verður betur séð en ráðherra vinni að fullri einurð og í samræmi við lög, reglur og venjur að því að greiða götu mjög mikilvægrar fjárfestingar hér á landi. Því verður ekki trúað að fæti verði brugðið fyrir verkefnið í þann mund sem það er að komast í höfn.“