Fréttasafn19. jan. 2010

Styrkir til nýsköpunar og rannsókna á loftslagi, umhverfi og orku

Áskoranir sem blasa við í loftslagsmálum krefjast nýrrar þekkingar og tæknilausna. Norðurlöndin hafa margt fram að færa á þessu sviði og löndin hafa nú þegar mikla reynslu af notkun endurnýjanlegra orkugjafa. Haustið 2008 var ákveðið að fara af stað með stærstu samnorrænu rannsóknaráætlun til þessa, Öndvegisrannsóknaráætlun (Topforskningsinitiativet). Alls verða 400 milljónir DK lagðar í verkefnið á 5 árum. Litið er á verkefnið sem framlag Norðurlanda til loftslagsmála og samhliða er því ætlað að styrkja rannsóknir og atvinnulíf á svæðinu. Valin eru áherslusvið þar sem löndin hafa sameiginlega hagsmuni og styrk til að leggja sitt fram á alþjóðavettvangi. Lögð er áhersla á hágæða rannsóknir, samvinnu og þátttöku atvinnulífs til að tryggja að niðurstöður verði nýttar. Fyrstu auglýsingar um umsóknir hafa þegar birst og eru umsóknarfrestir á næstu mánuðum. Áætlunin samanstendur af sex undiráætlunum:


1. Aðlögun að loftslagsbreytingum og rannsóknir á áhrifum þeirra
2.   Víxlverkanir milli loftslagsbreytinga og freðhvolfs jarðar
3.   Orkunýtni með örtækni
4.   Samþætting stórfelldrar virkjunar á vindorku
5.   Sjálfbært lífeldsneyti
6.   CO2 - föngun og geymsla

Markmiðið er að Norðurlöndin leggi sitt af mörkum við að leysa loftslagsvanda heimsins með því að gera bæði rannsóknastofnanir og atvinnulíf þátttakendur og tengja þá bestu á sínu sviði saman. Nánari upplýsingar veitir Bryndís Skúladóttir, forstöðumaður umhverfismála SI. Sjá einnig á vefsíðu www.toppforskningsinitiativet.org