Fréttasafn



  • TG_verktakar_RGB_JPEG

21. jan. 2010

Nýr grunnur fyrir vísitölu byggingakostnaðar

Hagstofan hefur í fyrsta sinn birt byggingavísitölu samkvæmt nýjum grunni. Í síðasta tölublaði Íslensks iðnaðar var talað við Heiðrúnu Guðmundsdóttur og Stefán Loga Sigurþórsson sérfræðinga í vísitöludeild Hagstofunnar og fjallað um þessar breytingar.

Lesa má viðtalið hér.

Frá og með janúar 2010 verður vísitala byggingarkostnaðar reiknuð á nýjum grunni, en það er Hagstofa Íslands sem stendur að mánaðarlegri útgáfu vísitölunnar. Grunnskipti fóru síðast fram árið 1987 og því er viðbúið að notendur vísitölunnar verði varir nokkurra breytinga í kjölfarið. Af þessu tilefni lögðum við nokkrar spurningar fyrir Heiðrúnu Guðmundsdóttur og Stefán Loga Sigurþórsson, en þau eru sérfræðingar í vísitöludeild og hafa umsjón með vísitölu byggingarkostnaðar.

Hvað felst í því að skipta um grunn byggingarvísitölu?

Grunnur vísitölunnar ákvarðar hvaða byggingaraðföng eru verðmæld í vísitölunni. Tilgangur grunnskipta er að ná utan um þróun og áherslubreytingar í byggingartækni, þar með talið breytta efnis- og vinnuaflsnotkun. Nýja vísitöluhúsið er hefðbundið 18 íbúða svalagangshús og má finna í því ýmislegt sem ekki var til staðar í 1987 húsinu, s.s. lyftu, hálfniðurgrafinn bílakjallara, gipsveggi, forsteyptar veggeiningar, nútíma tengla og rafmagnsefni og þannig mætti lengi telja. Við höfum í samstarfi við reynda sérfræðinga á byggingarmarkaðnum greint allt vísitöluhúsið niður í mælanlegar einingar, og má segja að við ætlum okkur að byggja húsið frá grunni einu sinni í mánuði.

Hvernig fer verðmælingin fyrir vísitöluna fram?

Vinnan við grunnskiptin hefur farið fram í samstarfi við söluaðila byggingarefnis, þar sem þeir hafa aðstoðað við val á byggingavörum sem falla vel að vísitöluhúsinu. Einu sinni í mánuði senda þeir inn verðtilboð á þessum vörum. Helsta nýjungin í mælingunni er að nú er tekið fullt tillit til þeirra afsláttarkjara sem skilvísir verktakar, sem byggja hús af þessari stærðargráðu, njóta. Í gamla grunninum var miðað við listaverð. Talsverð breyting er fyrirhuguð við mælingu á kostnaði vinnuliða. Í nýja grunninum munum við nota raunupplýsingar úr launakerfum byggingarfyrirtækja, sem safnað er í launarannsókn Hagstofu Íslands. Gögnin eru því ítarlegri en við höfum áður haft kost á og sýna þróun launakostnaðar jafnt í uppsveiflu sem í niðursveiflu. Hingað til höfum við stuðst við hreina taxta í kjarasamningum, þ.e.a.s. grunn- og yfirvinnutaxta auk reiknitölu ákvæðisvinnu vegna uppmælinga. Því er viðbúið að vísitalan verði mun næmari fyrir breytingum á markaðnum sem fylgja þenslu og samdrætti.

Nú eru ýmsir aðrir kostnaðarliðir en byggingarefni og vinna sem hvíla þungt á byggingarfyrirtækjum, s.s. fjármagnskostnaður og lóðaverð. Hvernig er tekið á því í vísitölunni?

Þessir kostnaðarliðir eiga ekki heima í byggingarvísitölunni. Vísitala byggingarkostnaðar er svokölluð aðfangavísitala sem mælir mánaðarlegar breytingar á kostnaði verktaka við öll aðföng sem þarf til að reisa tiltekið hús á tiltekinni lóð. Þessi aðföng eru efni, vinna, leiga á vélum, flutningskostnaður og þess háttar. Fjármagnskostnaður og kostnaður af lóðakaupum fellur ekki til vegna aðfanga verktakans heldur verkkaupans sem ræður verktakann til verksins. Nú er því oft þannig háttað hér á landi að verktakinn og verkkaupinn samkvæmt þessum skilgreiningum er sami aðilinn, en byggingarvísitölur byggja almennt á þessari aðgreiningu og engin breyting verður á því við grunnskiptin.

Verða einhverjar breytingar á þeim upplýsingum sem birtar eru í hverjum mánuði?

Já, framsetningin mun taka nokkrum breytingum. Eftir grunnskiptin mun öll birting á undirvísitölum verða á vefsíðu Hagstofu Íslands en útgáfu á sérritinu „Byggingarvísitölur“ sem Nýsköpunarmiðstöð Íslands hefur haldið utan um verður hætt. Birtar verða nýjar undirvísitölur byggingarvísitölu og vogir fyrir þær samkvæmt byggingarstaðli ÍST 51:2001. Rúmmetra- og fermetraverð munu taka sömu breytingum og byggingarvísitala á nýjum grunni en að öðru leyti verður birtingu á krónutölum hætt. Vísitölugildi eldri grunna verða áfram birt í sérstakri töflu, auk þess sem núverandi sundurliðun verður birt samhliða nýjum undirvísitölum í 4 mánuði til að notendum gefist rúm til aðlögunar. Síðasta birting á fullri sundurliðun gömlu vísitölunnar verður því í apríl 2010 (vísitala sem hefur gildistíma í maí). Vísitala iðnaðarhúsnæðis verður lögð niður. Ítarlega verður fjallað um grunnskiptin og nýja vísitöluhúsið í Hagtíðindaheftinu „Vísitala byggingarkostnaðar á nýjum grunni“ sem Hagstofan mun gefa út 8. febrúar næstkomandi.