Fréttasafn  • ESB fáninn

23. mar. 2010

Nýtt MA- og diplómanám í Evrópufræðum

Í haust hefst við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands nýtt MA- og diplómanám í Evrópufræðum. Forkröfur fyrir námið eru BA-próf í einhverri grein. Námið verður kynnt á Námskynningu í HÍ næsta fimmtudag, 25. mars, á Háskólatorgi frá kl. 16:00-18:00.

Forkröfur fyrir námið eru BA-próf í einhverri grein (1. einkunn á BA prófi í MA- námið, en einungis BA-próf í diplóma námið). Kennarar koma úr röðum okkar fremstu sérfræðinga, en auk þeirra hefur verið ráðinn til deildarinnar dr. Maximilan Conrad, ungur og upprennandi fræðimaður sem hefur sérhæft sig í stofnunum Evrópusambandsins.

Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi þekkingar á sviði Evrópufræða, hvort sem Ísland kýs að gerast aðili að Evrópusambandinu eða ekki, enda er landið aðili að Evrópska efnahagssvæðinu og innleiðir þegar umtalsverðan hluta regluverks Evrópusambandsins. Þá er Evrópa stærsta markaðssvæði Íslands. Skilningur á öllu regluverki Evrópusambandsins og umgjörð þess er því brýnt hagsmunamál fyrir Ísland.

Meistaranám í Evrópufræðum býr nemendur undir hvers kyns störf sem krefjast fræðilegrar jafnt sem hagnýtrar þekkingar á Evrópusamrunanum, stofnunum Evrópusambandsins og ákvarðanatöku innan þess, alþjóðasamskiptum almennt og stöðu Íslands bæði almennt í alþjóðasamfélaginu og í Evrópu. Hér getur verið um að ræða störf í ráðuneytum, stofnunum, sveitarfélögum, fyrirtækjum eða hagsmunasamtökum sem eru í samskiptum eða samstarfi við Evrópusambandið og falið í sér sérfræðiráðgjöf, rannsóknir eða þjónustu.

Kennarar koma úr röðum færustu innlendra fag- og fræðimanna á þessu sviði, en erlendir kennarar eru kallaðir til þegar sérþekking er ekki til staðar hér á landi. Þeir eru sérfræðingar í innviðum, regluverki og ákvarðanatöku Evrópusambandsins, öryggismálum Evrópu og stöðu Íslands í þessu samhengi.

Meistaranám í Evrópufræðum er 120 eininga hagnýtt og fræðilegt tveggja ára nám fyrir alla sem hafa lokið BA- eða BS-námi, með fyrstu einkunn, í einhverri grein. Diplómanám í Evrópufræðum er hagnýt og fræðileg 30 eininga námsleið á fyrir þá sem lokið hafa BA- eða BS-námi í einhverri grein. Umsóknarfrestur í MA-nám í Evrópufræðum til að hefja nám að hausti 2010 er til 15. apríl.

Umsóknarfrestur í diplómanámið er til 5. júní.

Nánari upplýsingar fást í síma 525-4573/525-5445