Fréttasafn



  • Verðbólga

24. mar. 2010

Verðbólguþróun og vaxtastefna umhugsunarefni

„Hækkun verðbólgunnar kemur ekki á óvart og skýrist að nokkru af árstímabundnum útsölulokum og bensínhækkunum. Það breytir þó ekki þeirri staðreynd að verðbólgan er mjög há og ekkert lát virðist vera á kaupmáttarrýrnun landsmanna“, segir Bjarni Már Gylfason hagfræðingur Samtaka iðnaðarins. Hagstofan birti í morgun nýjar verðbólgutölur sem sýna að verðbólga mælist nú 8,5% og hefur hækkað talsvert frá fyrra mánuði. Án húsnæðis mælist verðbólgan nú 12%.

„Það sést glögglega á þeim mikla mun á verðbólgu með og án húsnæðis hve erfið staðan á fasteignamarkaðnum er. Lækkun húsnæðisverðs er m.ö.o. að draga niður verðbólguna. Þessi þróun leiðir hugann að vaxtastefnunni og verðbólguþróun síðustu ára. Á árunum 2005-2007 voru miklar hækkanir á fasteignaverði sem keyrðu verðbólguna upp. Á sama tíma barðist Seðlabankinn við verðbólguna með stöðugum vaxtahækkunum án þess að sýnilegur árangur næðist. Nú þegar þessi þróun hefur snúist við bólar ekkert á vaxtalækkunum í neinu samhengi við lækkun fasteignaverðs. Staðreyndin er auðvitað sú að enginn eftirspurnarþrýstingur er í hagkerfinu og réttlæting á háum vöxtum er erfið. Aldrei hefur verið mikilvægara að koma hreyfingu á þetta fjármagn og örva hagkerfið. Eina raunhæfa leiðin til að ná verðbólgunni niður er að styrkja krónuna og efling efnahagslífsins er forsenda þess. Til að efla efnahagslífið þarf aftur að koma fjárfestingum í gang og virkja fjármagnið sem nóg er af en til að svo megi verða þarf að koma vöxtum niður“, segir Bjarni Már.

verdbolga_2005_2010