Banna, banna
Ögmundur Jónasson leggur í fimmta sinn fram tillögu um að skerða samkeppnisstöðu innlendra bjórframleiðenda gagnvart erlendum. "Vonandi fer fyrir frumvarpi Ögmundar á sama veg og í hin skiptin fjögur, segir framkvæmdastjóri SI.
Sama borð
"Það er skýlaus krafa að innlendir framleiðendur sitji við sama borð og erlendir keppinautar þegar kemur að áfengisauglýsingum sem ber fyrir augu og eyru íslenskra neytenda. Samtök iðnaðarins hafa talað fyrir því í fjölda ára. Þau hafa einnig lagt til að settar verði skýrar reglur sem byggi á evrópskum reglum um auglýsingar á áfengi, segir Jón Steindór Valdimarsson, framkvæmdastjóri SI.
Skynsamlegar tillögur
Nú ber svo vel í veiði að skýrsla starfshóps á vegum fjármálaráðherra kom út í liðnum janúar. Starfshópurinn hafði það verkefni að gera tillögur um heildarendurskoðun áfengislöggjafarinnar, þar á meðal reglur um áfengisauglýsingar.
Samtök iðnaðarins hvetja Alþingi til þess að leggja frumvarp Ögmundar til hliðar en fara þess í stað að tillögum nefndar fjármálaráðherra sem skipuð var fagfólki.
Í skýrslunni segi m.a. þetta um áfengisauglýsingar:
"Lagaákvæði um auglýsingar kveða á um bann við auglýsingum á áfengi með nokkrum undantekningum. Lagaákvæðið er nokkuð skýrt en vegna undanþáguákvæða er hægt að sniðganga bannið með auðveldum hætti s.s. með auglýsingu firmamerkis. Starfshópurinn hefur skoðað ítarlega ýmis atriði sem snúa að auglýsingum áfengis og að hans mati er óraunhæft að ætla að hægt sé að koma algjörlega í veg fyrir auglýsingar áfengis.
Eins og fram kemur í tíunda kafla eru framleiðendur og heildsalar áfengis að auglýsa áfengi undir þeim formerkjum að um léttöl sé að ræða. Oftar en ekki eru þær tegundir áfengis ekki fáanlegar fyrir neytendur og því um augljósa blekkingu að ræða í skjóli undanþáguákvæðis áfengislaganna. Þá bendir starfshópurinn á að heimilt er að auglýsa áfengi í erlendum tímaritum og í útsendingum frá erlendum sjónvarpsstöðvum sem skapar ákveðið misrétti milli innlendra áfengisframleiðenda og erlendra. Innlendir aðilar hafa því ekki sömu tækifæri til markaðssetningar og þeir erlendu. Starfshópurinn telur að þetta séu m.a. rök fyrir því að endurskoða þurfi reglur um auglýsingar áfengis.
Starfshópurinn leggur til að heimila skuli auglýsingar áfengi með miklum takmörkunum þó. Slíkt er í samræmi við reglur flestra Norðurlandaþjóðanna og gerir að mati starfshópsins eftirlit skilvirkara og eyðir réttaróvissu sem nú ríkir. Framleiðendur og heildsalar bentu á að ein leið væri að þeir settu sér siðareglur um framsetningu áfengisauglýsinga og löggjafinn heimili áfengisauglýsingar. Starfshópurinn dregur í efa að slík leið dugi ein og sér. Bendir hópurinn á að löggjöf Frakklands geti verið ákjósanleg þar sem hún hefur reynst vel og náð fram þeim markmiðum sem að var stefnt. Einnig væri hægt að hafa hliðsjón af reglum þeirra Norðurlandaþjóða sem heimila auglýsingar áfengis. Starfshópurinn telur að ef auglýsingar áfengis verði heimilaðar sé brýnt að fylgjast samhliða með breytingum á neyslumynstri þjóðarinnar."
Skýrsla starfshóps fjármálaráðuneytisins
http://www.fjarmalaraduneyti.is/media/Utgefin_rit/Heildarendurskodun_afengisloggjafarinnar_2010.pdf