Fréttasafn



  • Helgi Magnússon

29. mar. 2010

Rifist um sátt

RIFIST UM SÁTT

eftir Helga Magnússon

Nú er rifist um það hvort stöðugleikasáttmálinn var svikinn mikið eða lítið. Rifist um það hvort hann var svikinn nægilega mikið til að verðskulda uppsögn eða hvort hann var ekki svikinn meira en svo að uppsögn sé ósanngjörn.

Lítum á nokkrar staðreyndir.

Helstu markmið stöðugleikasáttmálans frá því í lok júní 2009 voru m.a. að skilyrði yrðu sköpuð fyrir aukinni fjárfestingu innlendra sem erlendra aðila, auknum hagvexti og nýrri sókn í atvinnumálum. Þetta átti ekki síst að nást fram með því að mannaflsfrekum stórframkvæmdum yrði hraðað sem mest mátti verða. Því sagði orðrétt í sáttmálanum sem forsætisráðherra og fjármálaráðherra undirrituðu fyrir hönd ríkisstjórnarinnar:

„Ríkisstjórnin mun greiða götu þegar ákveðinna stórframkvæmda sbr. þjóðhagsáætlun, s.s. framkvæmda vegna álvera í Helguvík og Straumsvík. Undirbúningsvinnu verði hraðað vegna áforma sem tengjast fjárfestingu í meðalstórum iðnaðarkostum, s.s. gagnaverum og kísliflöguframleiðslu. Kappkostað verður að engar hindranir verði af hálfu stjórnvalda í vegi slíkra framkvæmda eftir 1. nóvember 2009.

Ríkisstjórnin gangi til samstarfs við lífeyrissjóði um að þeir fjármagni stórar framkvæmdir með sérstakri fjármögnun. Stefnt skal að því að viðræðum ríkisstjórnar og lífeyrissjóða verði lokið fyrir 1. september 2009.“

TÍMINN LÁTINN LÍÐA

Þetta gekk því miður ekki eftir. Enn eru ýmsar hindranir á sviði orkumála sem standa í vegi framkvæmda vegna álvera og annara iðnaðarkosta. Framkvæmdir við byggingu álvers í Helguvík tefjast, m.a. vegna þess að umhverfisráðherra tafði afgreiðslu á heimild til byggingar svonefndrar suðvesturlínu um marga mánuði. Þá hefur ríkisstjórnin stöðvað undirbúning virkjana í neðri hluta Þjórsár með ómálefnalegri ákvörðun ráðherra sem er í andstöðu við margra ára venjur og góða stjórnsýsluhætti. Einnig hefur lítið komið út úr viðræðum stjórnvalda við lífeyrissjóði um fjármögnun stórverkefna, ef undan er skilin bygging nýs Landsspítala, þrátt fyrir fullan vilja af hálfu lífeyrissjóðanna í landinu. Stjórnvöld hafa ekki enn getað komið fram með aðferðir og skýran vilja til verka.

Almennt er ekki nægileg áhersla lögð á aðgerðir í atvinnumálum og baráttu gegn atvinnuleysi. Aðilar vinnumarkaðarins minna stöðugt á þann hræðilega vanda að 15.000 manns eru nú án atvinnu. Ekki er að sjá að þær staðreyndir og sú umræða marki forgangsröðun stjórnvalda.

Samkvæmt sáttmálanum áttu stýrivextir Seðlabankans að vera komnir niður í eins stafs tölu fyrir 1. nóvember 2009. Það gekk ekki eftir og nú loksins á vormánuðum 2010 eru þeir komnir í 9% sem er 8% hærri vextir gagnvart evru eða tvöfalt það sem að var stefnt í stöðugleikasáttmálanum.

LÖNGU KOMIN ÁSTÆÐA TIL UPPSAGNAR

Þegar af þessum ástæðum – og reyndar mörgum öðrum – var löngu komin full ástæða til að Samtök atvinnulífsins segðu sig frá þessum sáttmála. Stjórn samtakanna stóð frammi fyrir þeirri spurningu í lok október 2009 og einnig skömmu fyrir jól og jafnframt á fundi sínum þann 30. desember sl. En í öllum tilvikum var valin sú leið að freista þess að fá ríkisstjórnina til að herða upp hugann og standa við sinn hluta sáttmálans. Með því sýndum við þolinmæði og langlundargeð sem nú er þrotið. Við verðum því með engri sanngirni vænd um ábyrgðarleysi þegar við nú teljum okkur tilneydd til uppsagnar á þessum sáttmála.

Vandinn er m.a. sá að einhverjir ráðherrar ríkisstjórnarinnar telja sig ekki bundna af þeim samningum sem forsætisráðherra og fjármálaráðherra gerðu við verkalýðshreyfinguna og atvinnulífið í lok júní sl. Við töldum að Jóhanna og Steingrímur hefðu gert þetta í góðri trú og við töldum að þau sem leiðtogar ríkisstjórnarinnar og formenn stjórnarflokkanna töluðu í nafni ríkisstjórnarmeirihlutans. En svo virðist ekki vera sem er grafalvarlegt mál því hingað til hafa aðilar vinnumarkaðarins getað tekið fullt mark á forsætisráðherrum og leiðtogum stjórnarflokka á Íslandi. Hér er því um nýjan og þungbæran vanda að fást fyrir þá sem telja að menn eigi að standa við samninga af heilum hug.

RÁÐHERRA SKÖTUSELSMÁLA

Jón Bjarnason, sjávarútvegsráðherra, kastaði síðan stríðshanskanum með því að keyra í gegnum þingið lög sem klóra í núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi í stað þess að ná heildaryfirsýn og heildarsátt um þær breytingar sem gætu orðið til bóta. Undir þessu gátu Samtök atvinnulífsins ekki setið – enda hafði ríkisstjórninni ítrekað verið gerð grein fyrir því að við sáttarof af þessu tagi yrði ekki unað – ofan á allt annað sem ekki hefur verið staðið við.

Stjórn fiskveiða er umdeild og allar breytingar á því kerfi hafa kallað fram átök. Það er óviturleg forgangsröðun að kalla fram átök þegar samstöðu er þörf í brýnum endurreisnarverkefnum.

Ríkisstjórn sem stendur ekki við jafnmikilvægan samning og stöðugleikasáttmálinn er og efnir til óþarfa átaka við þá sem hún ætti helst að vinna með af heilindum – þarf að hugsa sinn gang og glöggva sig á því hvert hún stefnir.

Morgunblaðið 27. mars 2010