Fréttasafn



  • Fóðurverksmiðjan Bústólpi á Akureyri

29. mar. 2010

Nýr framleiðslubúnaður í fóðurverksmiðjunni Bústólpi

Veigamikil endurnýjun á framleiðslubúnaði fer fram í fóðurverksmiðjunni Bústólpa á Akureyri nú í vor. Með nýrri vinnslutækni tvöfaldast afkastageta verksmiðjunnar, unnt verður að framleiða orkuríkara og efnameira fóður miðað við rúmmál, ásamt því að fóðurgildi þess eykst. Áfanginn er sá stærsti í þriggja ára endurnýjunaráætlun sem stjórn Bústólpa ákvað að ráðast í árið 2007 og hefur markvisst verið unnið eftir síðan.

Ný verksmiðja að breytingum loknum

„Í raun er um að ræða nýja verksmiðju að breytingunum loknum,“ segir Hólmgeir Karlsson, framkvæmdastjóri fóðurverksmiðju Bústólpa á Akureyri en nýi búnaðurinn kemur til landsins í apríl og er undirbúningur uppsetningar þegar hafinn. Búnaðinum verður komið fyrir við hlið eldri framleiðslutækja verksmiðjunnar og stöðvast framleiðslan því óverulega á meðan skipt verður yfir.

Tvöföldun á afköstum

„Meðal þess sem við fáum í þessum áfanga er ný tækni til hitameðhöndlunar og vinnslu á fóðrinu, ásamt nýjum vélbúnaði til "kögglunar" og kælingar. Þetta er í rauninni hjartað í fóðurframleiðslunni og ræður miklu um gæðin á því fóðri sem kaupandinn fær og eykur einnig á öryggi framleiðslunnar gagnvart hugsanlegu örverusmiti, " segir Hólmgeir.

Sú tækni sem hér um ræðir er svokölluð "expandertækni" en með þeim búnaði er fóðurblandan háhituð í skamman tíma við mikinn þrýsting. Með þessu næst ekki bara örugg hitun heldur einnig aukið fóðrunargildi sem m.a. felst í betri nýtingu sterkju og próteina við fóðrunina sjálfa. Þá tryggir þessi meðhöndlun einnig minnsta mögulega tap vítamína við vinnsluna. „Þessi tækni hefur einnig mjög jákvæð áhrif á kögglagæði fóðursins. Með nýju vinnslulínunni tvöföldum við einnig afköst verksmiðjunnar og skiptitími milli tegunda verður til muna minni. Þessir þættir eru ráðandi um bætta arðsemi vinnslunnar,“ segir Hólmgeir.

Endurnýjun á öllum sviðum

Fyrsti hluti þriggja ára endurnýjunar verksmiðju Bústólpa fólst í uppsetningu á nýjum rafbúnaði og stýrikerfi verksmiðjunnar, nýr rykhreinsibúnaður var settur upp í kornhlöðu, löndunarbúnaður var endurnýjaður, sem og starfsmannaaðstaða. Viðgerð fór fram á húsnæði og unnið var að endurbótum á lóð og umhverfi.

Kostnaður við endurbæturnar segir Hólmgeir óverulegan miðað við ávinninginn og aðeins lítið brot af því sem kostað hefði að reisa nýja verksmiðju frá grunni.

„Með þessum endurbótum og breytingum horfum við til framtíðar þar sem þetta gerir okkur kleyft að framleiða hágæðafóður með öruggari og arðsamari hætti en áður. Bústólpi mun hér eftir sem hingað til leggja höfuðáherslu á vandaða framleiðslu og þjónustu við viðskiptavini fyrirtækisins. Með endurnýjun á verksmiðjunni erum við enn betur í stakk búin til þess," segir Hólmgeir Karlsson, framkvæmdastjóri Bústólpa.