Bylting í forvinnslu mynda fyrir prentverk
Um mitt árið 2008 var settur saman vinnuhópur á vegum Samtaka iðnaðarins sem fékk það verkefni að leita leiða til að einfalda og bæta vinnu hönnuða og ljósmyndara í forvinnslu fyrir prentverk. Hópurinn var í fyrstu skipaður þeim Birni Fróðasyni, Guðmundi Jónssyni, Ólafi Brynjólfssyni og Þorgeiri Vali Ellertssyni en síðar bættist Jón Sandholt við þá fjórmenninga.
Eitt að markmiðum hópsins var að prentsmiðjur réðu meiru um hina endanlegu útkomu prentverksins en áður hefur verið. Við tók mikil og markviss vinna og vorið 2009 skilaði hópurinn af sér fullmótuðum tillögum og leiðbeiningum sem síðan voru kynntar fyrir forsvarsmönnum prentsmiðja á stórum fundi í Húsi atvinnulífsins. Vinnan hélt þó áfram og undanfarna mánuði hefur farið fram ítarleg kennsla á þessu nýja og breytta verklagi, sem hefur verið afar vel tekið, en Ólafur Brynjólfsson hefur leitt þá kennslu í gegnum IÐUNA-fræðslusetur. Nú hafa rúmlega 500 manns sótt námskeiðin.
Þessu nýja verklagi hefur verið svo vel tekið og menn tala jafnvel um byltingu í forvinnslu mynda fyrir prentverk, byltingu sem aðeins mega finna samsvörun í því er menn fóru að skila verkefnum á PDF-sniði á síðustu öld. Margir hafa orðið til að lofa þetta framtak SI, m.a. Sigurður Ármannsson hjá Íslensku auglýsingastofunni sem segir í vefpistli á font.is að með þessu sé gamall draumur að rætast. Í stað þess að hönnuðir séu „skjálfandi á beinunum við að bögglast með að litgreina myndir, oft í tómri óvissu, er þessi hluti vinnslunnar að færast aftur til prentsmiðjanna, þar sem fagfólk sér um hana.“
Sigurður bendir jafnframt á að hagræðið af þessu sé óumdeilanlegt. Á teiknistofum sé nú hægt að nota sömu myndina í hvaða miðil sem er, hvort sem þær eigi að fara í dagblaðaprentun, á glanspappír eða eitthvað annað. Aðeins þurfi að gæta að því að mynd sé í réttum litum á rétt stilltum skjá. Sigurður getur þess að einstakt sé að hægt sé að gera svona breytingu á verkferlum hjá heilli þjóð en þetta sé þó ekki í fyrsta sinn og vísar þar til PDF væðingarinnar sem áður er nefnd. Sú væðing hafi ekki tekið langan tíma og heppnast afar vel en nú sé þó enn betur að verki staðið. Fyrst séu prentsmiðjurnar undirbúnar, því næst stærstu teiknistofurnar og aðrir sem þurfi aðstoð geti sótt námskeið í verklaginu. Sigurður getur þess að allt sé þetta „meira og minna undir handleiðslu Ólafs Brynjólfssonar með bakstuðningi fagmanna úr bransanum og Samtökum iðnaðarins.“
Á vefsetri Samtaka iðnaðarins geta allir sem það kjósa nálgast leiðbeiningarnar og þær skrár sem nauðsynlegar eru til að góður árangur náist við þetta nýja verkferli.