Fréttasafn  • Félagsfundur SI 14. apríl 2010

15. apr. 2010

Aðildarviðræður við ESB - samningaferlið

Almennur félagsfundur SI fór fram á Grand hóteli í gær. Yfirskrift fundarins var Aðildarviðræður við ESB – samningaferlið. Tilgangur fundarins var að ræða um samningaviðræður Íslands og ESB um aðild Íslands að ESB. Svana Helen Björnsdóttir, forstjóri Stika og Stefán Haukur Jóhannesson sem fer fyrir samninganefnd Íslands héldu erindi.

Jón Steindór Valdimarsson, framkvæmdastjóri SI setti fundinn með þeim orðum að það hefði í áraraðir verið stefna samtakanna að kanna ætti til hlítar þá leið að ganga í Evrópusambandið. Stöðugleika sé þörf svo hér sé hægt að byggja upp öflugan iðnað og atvinnulíf.

Svana Helen Björnsdóttir, forstjóri Stika og formaður Samtaka sprotafyrirtækja, sagði frá kynnisferð 13 frumkvöðla í höfuðstöðvar ESB í Brussel nú í mars. Þrettán manns úr ólíkum greinum hittu fólk, sátu fyrirlestra og fræddust um Evrópusambandið. Meðal þeirra sem þau hittu var Joanna Drake lögfræðingur frá Möltu sem sagði þeim frá hvernig aðildarferlið hefði gengið fyrir sig þar. Malta lagði inn umsókn árið 1990 og gekk í sambandið fjórtán árum síðar. Joanna sagði þetta hafa verið mikið þroskatímabil fyrir samfélagið sem varð opnara og lýðræðislegra, auk þess sem stjórnsýslan varð betri. Hún ráðleggur Íslendingum að vera heiðarleg í allri umræðu um málið og fræða fólk markvisst og fordómalaust. Joanna telur inngönguna í ESB hafa skilað Möltubúum auknum lífsgæðum.

Hópurinn hitti líka samninganefnd ESB, í samtölum þeirra kom fram að Íslendingar þyrftu að vanda vel til verka að skilgreina og rökstyðja kröfur sínar.

Svana lagði áherslu á mikilvægi þess að atvinnulífið tæki fullan þátt í þeirri umræðu.

Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra í Brussel og aðalsamningamaður Íslands hóf mál sitt með að lýsa ánægju yfir að fá tækifæri til að ræða þessi mál við fundargesti. Mikilvægt væri fyrir hann að eiga góð samskipti við þá sem eiga hagsmuna að gæta.

Ísland er statt í umsóknarferli ennþá, ráðherraráð ESB þarf að samþykkja að hefja viðræður þá fyrst verður viðræðum formlega ýtt úr vör. Fyrsta skrefið er að fara yfir löggjöf íslands og bera hana saman við löggjöf ESB og skilgreina hvað ber á milli. Undirbúningur að því er í fullum gangi í samningahópum. Í framhaldi af því þarf að skilgreina hvað við ætlum að leggja til ákveðinna mála og málaflokka. Þegar samningur liggur fyrir er hann lagður fyrir þjóðina.

Stefán telur að sjávarútveginn verða stærsta málið. Þar séu miklir hagsmunur sem þurfi að tryggja. Meðal annars að reglur ESB um hlutfallslegan stöðugleika verði virtar. Ennfremur þarf að tryggja að  útlendingar geti ekki keypt skip og aflaheimildir og flutt arðinn af auðlindinni úr landi.

Landbúnaðurinn og byggðamál verð líka mikilvæg og stór verkefni. Stefán telur allar líkur á að okkur takist að semja um sérsniðnar lausnir eins og mörg nágrannalönd okkar hafa gert, auk þess sem miklir möguleikar liggja í því hversu strjálbýlt landið er. Myntsamstarfið er afar mikilvægt mál fyrir Ísland og ljóst að í aðildarviðræðum verður allra leiða leitað til að koma á stuðningi ESB við krónuna. Stefán telur einsýnt einu valkostir okkar séu að taka upp evru með aðild að ESB eða viðhalda krónu. Verði síðarnefndi kosturinn raunin vakna upp áleitnar spurningar um tilveru okkar í EES-samningum.

Stefán ræddi lítillega um auðlindirnar og segir aðild að ESB engu breyta um rétt til vatns og vatnsfalla. Stærsti hluti orkulinda Íslands séu í opinberri eigu og þær megi ekki framselja til einkaaðila. Evrópusambandið skiptir sér ekki af því og hefur ekki heimild til að taka orkuauðlindir okkar.

Hvað áhrifaleysi eða afsal fullveldis varðar segir Stefán það einföldun að horfa á út frá atkvæða- og þingmannafjölda. Í flestum atvikum eru mál afgreidd með málamiðlun og atkvæði sjaldan greidd. Hann benti jafnframt á að þótt Ísland sé lítið land þá séum við mjög stór á vissum sviðum innan ESB svosem í sjávarútvegi og áliðnaði. Þegar svo háttar hefur það í för með sér áhrif.

Að lokum nefndi Stefán gagnrýnisraddir um að verið væri að sækja um aðild í óðagoti. Slík gagnrýni er að hans mati ekki réttlát, vandað væri vel til verka og þess vel gætt að farið sé vel með fjármuni. Það sé hins vegar ekki hans að svara áleitnum pólitískum spurningum. 

Að erindum loknum var opnað fyrir mælendaskrá og tóku nokkrir fundargesta til máls. Meðal annars var fjallað um súrálstolla ESB sem munu hafa mikil áhrif á álframleiðendur, veikt pólitískt bakland og hvernig unnt sé að hraða ferlinu inn myntsamstarf.

Fundurinn var vel heppnaður og ljóst að mikil þörf er á að ræða það ferli sem framundan er og gæta hagsmuna iðnaðarins og atvinnulífsins alls.  

Hér má sjá upptökur af erindum Stefáns Hauks og Svönu Helenar 

Svana Helen

 

Stefán Haukur