Fréttasafn



  • Prentsmidjan Oddi hlýtur Kuðunginn

26. apr. 2010

Prentsmiðjan Oddi hlaut Kuðunginn

Prentsmiðjan Oddi hlaut Kuðunginn, umhverfisviðurkenningu umhverfisráðuneytisins fyrir framlag fyrirtækisins árið 2009. Þóra Hirst, gæðastjóri prentsmiðjunnar veitti viðrkenningunni viðtöku.

Prentsmiðjan Oddi hlaut Kuðunginn, umhverfisviðurkenningu umhverfisráðuneytisins fyrir framlag fyrirtækisins árið 2009. Þóra Hirst, gæðastjóri prentsmiðjunnar veitti viðurkenningunni viðtöku.

Í frétt umhverfisráðuneytisins kemur fram að fyrirtækið hefur árum saman unnið eftir ákveðinni umhverfisstefnu, það hefur tekið upp umhverfisstaðla og unnið að því að lágmarka neikvæð áhrif starfseminnar á umhverfi og heilsu.

Á síðasta ári hlaut Oddi norrænu umhverfisvottunina, Svaninn. Svanurinn gerir strangar kröfur til prentsmiðja og lítur meðal annars til orku- og efnanotkunar, sorpflokkunar og rýrnunar. Kröfur Svansins til efnanotkunar í prentsmiðjum eru sérstaklega strangar. Svansvottunin nær yfir alla prentþjónustu Odda og fyrirtækið er fyrsta prentsmiðjan í heiminum sem hefur hlotið Svansvottun á framleiðslu bylgjukassa.
Í Odda er mjög fullkomin sorpflokkun, sem hefur leitt til meiri endurvinnslu og minni urðunarúrgangs. Þá hefur breytt framleiðslutækni leitt til minni efnanotkunar og markvissari stýringu til að lágmarka notkun á hættulegum efnum og tryggja rétta meðhöndlun þeirra.
Pappírinn sem notaður er í Odda ber Evrópublómið, umhverfisvottun Evrópusambandsins. Hann er endurunninn eða kemur frá nytjaskógum, þannig að fleiri tré eru gróðursett heldur en þau sem felld eru. Með því er ekki gengið á skógana og nýtingin er sjálfbær. Meginhluti trjánna í þessum skógum fer í timbur en kurlaðar trjágreinar, afskurður og sag eru notuð til pappírsframleiðslu. Þá er allur afskurður og pappírs afgangar hjá Odda gefnir í alla leikskóla landsins.

Oddi hefur skýra umhverfisstefnu og til að tryggja að þau skilyrði séu uppfyllt er unnið markvisst að því að allir 250 starfsmenn fyrirtækisins séu upplýstir um umhverfisáhrif sem tengjast rekstri prentsmiðjunnar sem og lög, reglugerðir, staðla og kröfur í umhverfismálum.

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra afhenti Þóru Hirst, gæðastjóra prentsmiðjunnar Odda Kuðunginn við athöfn í þjóðmenningarhúsinu á Degi umhverfisins í gær.