Fréttasafn



  • Vaxtarsprotinn 2010

5. maí 2010

Nox Medical hlaut Vaxtarsprotann 2010

Fyrirtækið Nox Medical ehf. hlaut í morgun Vaxtarsprotann 2010 sem er viðurkenning fyrir öfluga uppbyggingu sprotafyrirtækis. Fyrirtækið meira en tífaldaði veltu sína milli áranna 2008 og 2009 úr 16,5 m.kr í um 175 m.kr. Fyrirtækin Hafmynd, Menn og Mýs og Valka fengu einnig viðurkenningar fyrir góðan vöxt á síðasta ári.

Vaxtarsprotinn er viðurkenning sem veitt er á vegum Samtaka iðnaðarins, Rannsóknamiðstöðvar Íslands og Háskólans í Reykjavík. Tilgangurinn er að vekja athygli á góðum árangri sprotafyrirtækja í örum vexti og skapa aukinn áhuga og skilning á uppbyggingarstarfi þessara fyrirtækja.

Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra, afhenti Sveinbirni Höskuldssyni framkvæmdastjóra Nox Medical Vaxtarsprotann 2010 að viðstöddum fulltrúum sprotafyrirtækja og stuðningsaðilum atvinnulífsins í Grasagarðinum Laugardal við hátíðlega athöfn í morgun.

Alls hlutu fjögur sprotafyrirtæki viðurkenningu fyrir öflugan vöxt milli áranna 2008 og 2009, en viðurkenningunum var skipt í tvo flokka. Í 2. deild, þ.e. flokki sprotafyrirtækja með veltu á bilinu 10-100 milljónir hlutu fyrirtækin Nox Medical ehf. og Valka ehf. viðurkenningu en í 1. deild, flokki sprotafyrirtækja með ársveltu á bilinu 100-1000 milljónir fengu fyrirtækin Hafmynd ehf. og Menn og Mýs ehf. viðurkenningu.  

Við sama tækifæri var fyrirtækið Betware hf. skráð í úrvalsdeild íslenskra hátæknifyrirtækja, en fyrirtækið hefur áður hlotið viðurkenningu Vaxtarsprotans fyrir góðan vöxt. Stefán Hrafnkelsson framkvæmdastjóri fyrirtækisins tók við sérstakri viðurkenningu úr hendi Davíðs Lúðvíkssonar, forstöðumanns hjá SI/SSP af þessu tilefni. Þessi viðurkenning er veitt innan Samtaka iðnaðarins þegar sprotafyrirtæki hafa náð þeim áfanga að velta meiru en milljarði króna á ári. Síðasta fyrirtækið sem náði þessum áfanga var Roche Nimblegen á árinu 2008.

Nox Medical ehf. er stofnað 2006 af verkfræðingum og heilbrigðisvísindafólki sem áður unnu hjá fyrirtækinu Flögu Medcare sem þá var verið að flytja úr landi. Stofnendur einsettu sér strax að þróa nýja kynslóð svefngreiningalausna sem hentuðu meðal annars við rannsóknir og meðhöndlun svefntruflana bæði barna og fullorðinna.

Stofnendur voru 7 starfsmenn Nox Medical, þau Sveinbjörn Höskuldsson framkvæmdastjóri, Kolbrún Ottósdóttir, Hjörtur Arnarsson, Ómar Hilmarsson, Björgvin Guðmundsson, Guðmundur Sævarsson, og Kormákur Hermannsson ásamt athafnamanninum og stjórnarformanni félagsins Ottó B. Ólafssyni.

Starfsmenn fyrirtækisins eru 8 talsins og veltuaukning fyrirtækisins á fyrsta ári eftir að ný afurð kom til sögunar hefur verið ævintýraleg. Þetta ár hefur einnig farið hratt af stað og miða áætlanir félagsins við að tvöfalda veltu síðasta árs á þessu ári.

Það tók aðeins þrjú ár að koma fyrstu afurð fyrirtækisins á markað, sem lýsa má sem byltingarkenndri nýjung í svefnmælingum og byggir m.a. á nýjungum í þráðlausum tölvusamskiptum, gagnageymslu, skynjara- og rafeindatækni. Búnaðurinn er ný kynslóð svefngreiningartækja, þar sem að áhersla er lögð á einfaldleika í notkun og þægindum sjúklings án þess að draga úr áreiðanleika í greiningu, gæði merkja eða umfangi mælinga. Búnaðurinn gerir það kleift að sjúklingurinn sjálfur getur mælt sig í eina eða fleiri nætur, sem eykur líkur á áreiðanlegum niðurstöðum umtalsvert og dregur úr kostnaði við mælingar. Þessi eiginleiki tækisins hefur vakið mikla athygli og hefur það meðal annars verið valið af bandarískum fyrirtækjum sem að sérhæfa sig í fjarlæknisþjónustu.

Fyrirtækið nýtir sér stóra undirverktaka í framleiðslu og öfluga samstarfsaðila í sölu og dreifingu. Þetta gerir fyrirtækinu kleift að vaxa mjög hratt þar sem uppskölun í magni er mun einfaldari en ella og aðgangur að mörkuðum þegar til staðar. Sala búnaðar á fyrsta söluári þess var umtalsvert umfram væntingar en vegna þessa viðskipamódels var hægt að mæta þessari auknu eftirspurn að mestu.
Fyrirtækið vinnur nú að því að styðja betur við núverandi framleiðsluvörur með bættri framleiðslutækni og flutningsleiðum. Fyrirtækið leggur einnig mikla áherslu á frekari vöruþróun til þess að breikka vörulínu þess fyrir svefnrannsóknir. Meðal annars er unnið að þróun einnota öndunarskynjara sem mun bæði virka með núverandi tækjabúnaði og öðrum svefngreiningarlausnum.

Nánar um Vaxtarsprotann

Meginviðmið dómnefndar er hlutfallslegur vöxtur í veltu milli tveggja síðustu ára. Fyrirtækið þarf að uppfylla skilgreiningu um sprotafyrirtæki – þ.e. að verja meira en 10% af veltu í rannsókna- og þróunarkostnað að meðaltali fyrir bæði árin. Heildarvelta fyrra árs þarf að vera yfir 10 milljónum en undir einum milljarði ísl. kr. Þá þurfa frumkvöðlar fyrirtækjanna að vera til staðar í tengslum við fyrirtækin og fyrirtæki sem hlýtur Vaxtarsprotann má ekki vera að meiri hluta í eigu stórfyrirtækis, fyrirtækis á aðallista kauphallar eða meðal 100 stærstu fyrirtækja landsins. 

Þetta er í fjórða skipti sem Vaxtarsprotinn er afhentur en hann hefur verið veittur árlega frá árinu 2007, það ár hlaut Maroka ehf. vaxtarsprotinn. Síðastliðin tvö ár hefur Mentor ehf. verið vaxtarsproti ársins. Verðlaunagripur Vaxtarsprotans er farandgripur úr áli og steini gefinn af Samtökum iðnaðarins, en auk hans fylgir skjöldur úr sömu efnum til eignar. Fyrirtækin fjögur sem hlutu viðurkenningar fengu auk þess sérstök viðurkenningarskjöl.

Nánar um fyrirtækin sem hlutu viðurkenningu

Valka ehf. er stofnað 2003 af Helga Hjálmarssyni, verkfræðingi. Fyrirtækið sérhæfir sig í sjálfvirkum lausnum fyrir matvælaframleiðslu með áherslu á gæði, nýtingu og hærra afurðarverð fyrir matvælaframleiðendur. Fyrirtækið hefur þróað búnað til pökkunar og vinnslu og hefur nýlega kynnt nýja afurð svokallaða RapidAligner flokkunarvél sem sér um að pakka og flokka fiskflök á sjálfvirkan hátt eftir vigt í kælibox eða kassa. Búnaðurinn var kynntur á sjávarútvegssýningunni í Brussel í síðasta mánuði þar sem hann vakti mikla athygli. Auk tækja og tæknilausna framleiðir fyrirtækið einnig hugbúnaðarlausnir.  

Hjá fyrirtækinu starfa í dag 8 manns og yfirstandandi er fjölgun starfsmanna. Auk þess nýtir fyrirtækið verktaka hér á landi til að framleiða allar vörur Völku og þegar mikið er að gera í hönnun og forritun eru einnig fengnir verktakar í slík verkefni. Frumkvöðull fyrirtækisins og aðaleigandi Helgi Hjálmarsson starfar sem framkvæmdastjóri þess í dag. 

Menn og Mýs ehf. er stofnað 1990 af Pétri Péturssyni, Jóni Georg Aðalsteinssyni og Kristni Eiríkssyni. Fyrirtækið sérhæfir sig í stjórnunarlausnum fyrir DNS, DHCP og IP innviði stórra netumhverfa. Fyrirtækið hefur þróað lausnir undir vörumerkinu Men & Mice Suite og selur erlendum stórfyrirtækjum og stofnunum.

Helsti markaður félagsins er í Norður Ameríku. Á öðrum mörkuðum selur fyrirtækið í auknum mæli gegnum endursöluaðila. Fyrirtækið er með starfsstöðvar í Norður Ameríku og Evrópu auk Íslands. Hjá fyrirtækinu starfa í dag 22 starfsmenn, 16 á Íslandi og 6 erlendis.

Pétur Pétursson og Jón Georg Aðalsteinsson starfa enn hjá félaginu við sölustarf og uppbyggingu viðskiptatengsla. 

Hafmynd ehf. eða Gavia sem fyrirtækið notar erlendis var stofnað 1999 af Hjalta Harðarsyni verkfræðingi, sem hóf rannsóknir á sjálfstýrðum djúpförum árið 1996 með stuðningi rannsóknarstyrkja frá Tæknisjóði Rannís. Árið 2001 fjárfestu Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins og Mallard Holding (Össur Kristinsson) í Hafmynd ehf. Markmið þeirra var að styðja við þróun djúpfarsins. Frá þeim tíma hefur Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins og Mallard Holding tryggt fjármögnun félagsins. Í dag eiga þessir tveir aðilar yfir 90% hlutafjár, en Hjalti er þó enn þriðji stærsti hluthafi félagsins og starfaði hjá félaginu fram til ársins 2007. Egill, bróðir Hjalta, hannaði alla vélræna hluti djúpfarsins og er enn starfandi hjá félaginu.

Hjá fyrirtækinu starfa í dag 17 manns í fjórum deildum og framundan er spennandi tími. Félagið undirbýr útleigu á kafbátum, í samstarfi við erlent félag, en markmiðið er að bjóða olíufélögum og vísindastofnunum aðgang að djúpförum til ýmissa verkefna um heim allan. Markmiðið er að auka útbreiðslu tækninnar og festa í sessi ímynd Gavíu sem fullkomið tæki til neðansjávarrannsókna.  

Betware hf. er íslenskt hugbúnaðarfyrirtæki stofnað árið 1998 af Stefáni Hrafnkelssyni, Steindóri Guðmundssyni og Ólafi Andra Ragnarssyni. Hjá fyrirtækinu hefur verið unnið frumkvöðlastarf á sviði hönnunar og þróunar leikjavefja fyrir ríkislottó. Betware býður ríkislottóum hugbúnaðarlausn með öflugu umsjónarkerfi sem gerir lottófyrirtækjum mögulegt að ná til viðskiptavina sinna á árangursríkan hátt á netinu, í farsíma og með annarri gagnvirkri miðlun. Helstu leikir Betware eru lottó, skafmiðar, bingó og getraunir á íþróttaviðburði.

Helstu viðskiptavinir fyrirtækisins eru Danske Spil (danska ríkislóttóið), British Columbia Lottery Corporation (lottó í Bresku Kólombíu í Kanada), Sistemas Tecnicos de Loterias del Estado (spænska ríkislottóið), Íslenskar getraunir og Íslensk getspá.  

Árið 2009 var gott ár í rekstri Betware. Fyrirtækið fékk í fyrra vottun samkvæmt ISO 27001 gæðastaðli um öryggi í upplýsingatækni og nú er unnið að því að bæta við svokallaðri WLA vottun, sem er sérstaklega sniðin fyrir rekendur lottóa og getrauna. Tekjur jukust um 53%, frá 808 milljónum kr. árið 2008 í 1.233 milljónir kr. árið 2009. Hagnaður eftir skatta jókst úr 19 milljónum kr. árið 2008 í 181 milljón kr. árið 2009.

Fjöldi starfsfólks jókst úr 78 í lok árs 2008 í 94 starfsmenn í lok árs 2009. Nánast allur vöxturinn var í höfuðstöðvum fyrirtækisins á Íslandi. Hjá Betware starfa nú rúmlega 100 starfsmenn í Reykjavík, Kaupmannahöfn, Varsjá, Madríd og Kamloops í Bresku Kólombíu í Kanada. 

Betware er skuldlaust fyrirtæki og hefur fjárhagslega getu til að takast á við spennandi tækifæri framundan og halda áfram öflugu þróunarstarfi. Fyrirtækið stefnir á samstarf við öflug fyrirtæki á sínu sviði, sem mun skapa Betware enn betri stöðu á árinu 2010.

Stefán Hrafnkelsson er framkvæmdastjóri fyrirtækisins í dag, en með honum starfa þeir Ólafur Andri Ragnarsson og Steindór Guðmundsson sem hafa verið í fyrirtækinu frá upphafi.