Fréttasafn  • Utflutningsting_2010

7. maí 2010

Hlutfall utanríkisviðskipta lágt í alþjóðlegu samhengi

Sóknarfæri í útflutningi var yfirskrift Útflutningsþings sem haldið var á Hilton Reykjavík Nordica, fimmtudaginn 6. maí 2010. Þar komu saman stjórnendur fjölbreyttra útflutningsfyrirtækja sem miðluðu af reynslu sinni og fjölluðu um tækifæri í útflutningi.

Í erindi sínu á þinginu sagði Bjarni Már Gylfason, hagfræðingur SI, hlutfall utanríkisviðskipta af landsframleiðslu á Íslandi væri lágt í alþjóðlegu samhengi á meðan smáríki í Evrópu væru mörg hver með tvöfalt hærra hlutfall. „Það er útbreiddur misskilningur að Ísland sé mjög opið hagkerfið sem er drifið áfram af útflutningi. Vissulega skiptir útflutningur okkur afar miklu, sérstaklega núna þegar kreppir að en nágrannaþjóðir okkar eru að gera mun betur. Framan af síðustu öld einkenndist útflutningur okkar af einhæfni en við erum ekki komin lengra en svo að nú einkennist hann af fábreytni. Þessu má breyta en það kallar á nýjar áherslur og betri starfsskilyrði“.

Bjarni segir að Ísland sé frábrugðið öðrum smáríkjum í Evrópu að því leytinu til að  atvinnu- og útflutningsiðnaður okkar byggir að takmörkuðu leyti á innflutningi íhluta og hráefna til fullvinnslu. „Okkar útflutningur kallar á lítinn innflutning þar sem við byggjum mjög á nýtingu náttúruauðlinda. Það er í sjálfu sér ekkert slæmt  en þessi staðreynd helst í hendur við það hversu fábreyttur okkar útflutningur er m.v. nágrannalönd okkar. Við erum auðvitað landfræðilega aðskilin helstu mörkuðum okkar. Við getum ekki breytt því en það er í okkar valdi að bæta starfsskilyrði“, segir Bjarni Már. 

Bjarni segir það vera fræðilega staðreynd að sameiginleg mynt örvi mjög utanríkisviðskipti og bendi rannsóknir til að aukningin á Íslandi geti orðið 60% við þátttöku í myntbandalagi. „Hvað sem mönnum finnst um aðild að ESB og upptöku evru á Íslandi þá er ljóst að krónan er talsverður dragbítur á utanríkisviðskipti“. 

Eftir að kreppan skall á hefur verið kerfisbundinn afgangur af vöruskiptum. Útflutningur hefur aukist talsvert og innflutningur er hættur að dragast saman. „Ein augljós skýring af vaxandi verðmæti útflutnings er að starfsskilyrðin eru betri að því leytinu til að krónan hefur veikst mikið og við fáum meira fyrir útflutningsvörur okkar. Mikilvægt er hins vegar að ekki sé ráðist í fjárfestingar og verkefni sem byggja á þeirri forsendu að krónan sé svona veik. Krónan var óeðlilega sterk á árunum 2004-2008 en hún er óeðlilega veik núna. Verkefnin verða fara í gang á sínum eigin forsendum en ekki á veiku gengi um þessar mundir. Sagan kennir okkur að svona lágt raungengi fæst ekki staðist til lengdar“, segir Bjarni Már að lokum.

Glærur Bjarna Más.

Nálgast má glærur allra ræðumanna á vefsetri Útflutningsráðs.