Fréttasafn  • Jón Steindór Valdimarsson

20. maí 2010

Eitt atvinnuvegaráðuneyti skynsamlegt skref

Sameining ráðuneyta sem sinna málefnum atvinnulífsins er fagnaðarefni og í samræmi við stefnu Samtaka iðnaðarins til margra ára. Ekki er þó sama hvernig er að verki staðið og þar skortir talsvert á af hálfu ríkisstjórnarinnar.

„Það er fagnaðarefni að loks skuli stjórnvöld ákveðin í að stokka upp stjórnarráðið og færa til nútímans“ segir Jón Steindór Valdimarsson, framkvæmdastjóri SI.

„Eitt atvinnuvegaráðuneyti hefur lengi verið á óskalista okkar. Má sem dæmi nefna stefnuskjal SI frá árinu 1998.“ Þar segir m.a:  „Góð starfsskilyrði þarf til vaxtar og viðgangs alls atvinnulífs en til þess þarf jöfnuður að ríkja í starfsskilyrðum milli atvinnugreina. Þess vegna er nauðsynlegt að nema á brott öll ákvæði í lögum og aðgerðir stjórnvalda sem mismuna atvinnugreinum. Draga þarf úr hefðbundinni en úreltri aðgreiningu á þessu sviði, t.d með stofnun eins atvinnuvegaráðuneytis og að atvinnurekendur ættu aðild að einum heildarsamtökum.“

„Samtök atvinnulífsins urðu til nokkrum árum seinna en ekkert bólaði á atvinnuvegaráðuneytinu“ segir Jón Steindór. Í ályktun Iðnþings 17. mars árið 2006 var enn hnykkt á þessu máli en þar sagði m.a:

„Hverfa verður frá hólfaskiptingu stjórnarráðsins sem ber svip af atvinnulífi liðinnar aldar. Eitt atvinnuvegaráðuneyti þarf til að auka skilvirkni í stoð- og starfsumhverfi íslenskra fyrirtækja. Núverandi skipan er löngu úrelt, hefur margvísleg neikvæð áhrif á ákvarðanir stjórnvalda og veldur skaða og mismunun í atvinnu­lífinu.“ 

„Það veldur okkur þess vegna vonbrigðum að ríkisstjórnin skuli kjósa að vinna hugmyndir að nýju atvinnuvegaráðuneyti annars vegar og nýju auðlinda- og umhverfisráðuneyti hins vegar án nokkurs samráðs eða samvinnu við atvinnulífið. Ekki kann það góðri lukku að stýra ef knýja á fram róttækar breytingar á öllu þessu kerfi, þ.m.t auðlindastýringu, rannsóknum og stoðkerfinu án þess að tala við þá sem málið varðar helst“ segir Jón Steindór og bætir við „Ég skora á ríkisstjórnina að gera hér bragarbót áður en lengra er haldið og ná góðri lendingu. Þá mun ekki standa á stuðningi okkar við þetta mikilvæga mál.“