Fréttasafn  • Meistaradeild SI

26. maí 2010

Ábyrgðasjóður Meistaradeildar MSI

Ágúst Pétursson, formaður Meistarafélagsins hefur sent frá sér grein þar sem fjallað er um mikilvægi þess, fyrir verkkaupa, að skipta við löggilta iðnmeistara sem hafa Ábyrgðasjóð að baki sér sem verkkaupar geta leitað til skili félagsmenn ekki faglegum vinnubrögðum. Mikilvægt er að verkkaupar spyrji verktaka hvort þeir séu félagsmenn. Ef verktaki segist vera félagsmaður er hægt að athuga það í félagatali á vefsetri SI.

Hver ábyrgist þinn meistara?

Í aprílmánuði 2009 var stofnuð deild allra meistarafélaga sem aðild eiga að Samtökum iðnaðarins. Deild þessi hlaut nafnið Meistaradeild Samtaka iðnaðarins (MSI). Meðal stefnumála MSI var að koma á ábyrgðarsjóði Iðnmeistara sem nú er orðinn að veruleika.

Hvað er Ábyrgðarsjóður iðnmeistara?

Með tilkomu Ábyrgðarsjóðsins aukast kröfur á þá iðnmeistara sem að honum standa varðandi verk og verkskil. Að sama skapi eykst réttur og öryggi neytenda svo framarlega sem viðskipti eiga sér stað við aðildarfélaga MSI. Telji verkkaupi, að sú þjónusta sem samið var um í upphafi verks sé ekki viðunandi, getur hann skotið máli sínu til Úrskurðarnefndar Meistaradeildarinnar en þar eiga meðal annars sæti fulltrúar frá Húseigendafélaginu og Neytendasamtökunum.

Skilyrði fyrir því að verkkaupi geti skotið máli sínu til Úrskurðarnefndar MSI er að skriflegur verksamningur hafi verið gerður milli málsaðila og falli úrskurður verkkaupa í vil fær hann bætur úr Ábyrgðarsjóðnum.

Einungis einstaklingar og húsfélög eiga þess kost að njóta bóta úr Ábyrgðarsjóðnum. Ekki fást bætur úr sjóðnum ef greiðslur fást úr öðrum tryggingum, s.s. byggingarstjóratryggingu eða verktryggingu.

Þá fjallar Úrskurðarnefnd Ábyrgðarsjóðs MSI ekki um mál þar sem samningsupphæðin er undir 100 þúsund krónum og yfir 25 milljónir, báðar upphæðir innifela virðisaukaskatt.

Hverjir standa að Ábyrgðarsjóði MSI?

Meistarafélög iðnmeistara í SI standa að sjóðnum. Þessi félög eru: · Meistarafélag iðnaðarmanna í Hafnarfirði · Málarameistarafélagið · Meistarafélag Suðurlands · Meistarafélaga byggingamanna á Norðurlandi · Félag blikksmiðjueigenda · Félag skrúðgarðyrkjumeistara

Innan raða þessara félaga starfa um 500 iðnmeistarar og nær starfsemi þeirra yfir alla verkþætti í mannvirkjagerð.

Lesandi góður, ef þú hyggur á framkvæmdir, stórar sem smáar, er ljóst að það felst mikil trygging í að velja sér iðnmeistara sem er aðili að Ábyrgðarsjóði MSI. Því hvet ég þig til að kynna þér málið áður en lengra er haldið og spyrja: Hver er meistari minn og hver ábyrgist verkin hans?

Ágúst Pétursson, formaður Meistaradeildar MSI

Nánar má kynna sér Ábyrgðarsjóð hér.