Fréttasafn  • Launafl fær B-vottun

9. jún. 2010

Launafl fyrstir með B-vottun

Launafl ehf. hefur náð þeim árangri að fá B-vottun SI fyrst allra fyrirtækja á Íslandi. Vottunin staðfestir að reksturinn er í góðum höndum, studdur með öflugu verkbókhaldi verkfundum, ýtarlegum starfslýsingum, góðri skipulags og eftirlitsáætlun, ásamt mikilli sérstöðu varðandi áherslur í öryggis- og heilbrigðismálum. Með vottuninni uppfylla þeir að öllu leyti kröfur opinberra verkkaupa um gæðatryggingu í útboðum til verklegra framkvæmda.

Launafl hóf vottunarferlið á síðasta ári. Óhætt er að segja að vel hafi tekist til hjá þeim en fyrirtæki fékk D-vottun í júní 2009 og C-vottun í desember og nú B-vottun í byrjun júní.

Ásgrímur Ásgrímsson, gæða- og öryggisstjóri Launafls er ánægður með hvernig til hefur tekist og segir samstarfið við SI hafa verið uppbyggjandi og fræðandi frá fyrsta degi. „Þetta vottunarferli er mjög spennandi á allan máta og gerir alla vinnu skilvirkari. Rekjanleiki gagna er orðin einfaldari og þessar vottanir hafa komið á föstum verklagsreglum sem við höfum samkvæmt B-vottun tileinkað okkur“. Ásgrímur segir Launafl vinna í sérstöku umhverfi en Alcoa Fjarðaál (AF) er stærsti viðskiptavinur fyrirtækisins. „Alcoa er kröfuharður verkkaupi og regluverkið í kringum þá mikið. Það að hafa gott gæðakerfi hjá félaginu er því að þakka að samstarfið við AF gengur að mestu hnökralaust fyrir sig.“  

Alcoa gerir kröfur til sinna verktaka að þeir uppfylli vissa umhverfis-, heilsu- og öryggisstaðla og þurfa allir verktakar að standast úttekt. „Hluti af þeim staðli er að verktakar hafi skráða stefnu í UHÖ málum og Launafl hefur kappkostað að vera fremstir í þeim málum almennt hér á austurlandi og veitir meðal annars ráðgjöf í gerð áhættugreininga, umhverfis-, heilsu- og öryggisstefnugerð“, segir Ásgrímur. Við afhendingu B-vottunarinnar gaf Launafl út öryggishandbók þar sem stiklað er á stóru varðandi öryggiskröfur og staðla. Bókin verður aðgengileg á vefsetri fyrirtækinsins launafl.is innan skamms.

Launafl var stofnað árið 2006 af 6 öflugum iðnfyrirtækum á Austurlandi. Aðaltilgangur félagins var fyrst og fremst að þjónusta Alcoa Fjarðaál í Fjarðabyggð á sviði rafviðgerða , málmsmíði og vélaviðgerða. 

Starfsemi félagsins hefur breyst mikið frá stofnun þess frá því að vera eins konar hattur fyrir þau aðildarfélög sem stofnuðu félagið í það að vera orðið öflugt iðnfyrirtæki í Fjarðabyggð sem getur boðið upp á flesta þá þjónustu sem iðnfyrirtæki þarf að inna af hendi. Starfsmannafjöldi Launafls hefur aukist frá stofnun félagins úr nokkrum starfsmönnum í það að vera um 105 talsins í dag.