Fréttasafn  • Héðinn fær ISO gæðavottun

11. jún. 2010

Héðinn hf. með ISO 9001 vottun

Gæðastjórnunarkerfi Héðins hf. hafa verið vottuð samkvæmt ISO 9001 staðlinum. Héðinn er fyrsta fyrirtækið í málmiðnaði og véltækni hér á landi til að hljóta þessa vottun.

British Standards Institute annaðist vottunarferlið hjá Héðni, en það tók aðeins sex mánuði. Örn Alexandersson frá BSI afhenti Guðmundi Sveinssyni framkvæmdastjóra Héðins formlega staðfestingu um vottun fyrirtækisins.

ISO 9001 vottunin staðfestir að Héðinn nálgast ferlastjórnun á verkefnum með kerfisbundnum hætti. Ferlar eru festir í sessi og skjalfestir, sem þýðir að þeir sem kaupa ákveðna þjónustu eiga alltaf að fá sambærilega þjónustu. Með vottuninni hlýtur Héðinn alþjóðlega viðurkenningu á stjórnkerfi sínu sem vekur traust á erlendum mörkuðum og ætti að auðvelda öflun verkefna á þeim vettvangi. Fyrirtæki með slíka vottun uppfylla að öllu leiti kröfur opinberra verkkaupa á Íslandi um gæðastjórnun.

„Við vorum með öflugt þriggja manna teymi sem vann að vottuninni og áttum ánægjulegt samstarf við BSI. Þetta skilaði sér því því hvað verkefnið gekk fljótt og vel fyrir sig,“ segir Guðmundur Sveinsson.

Á meðal þeirra verk- og þjónustuþátta í starfsemi Héðins sem eru tilgreindir í ISO 9001 vottunarskjalinu eru hönnun og verkumsjón tæknideildar, málmsmíði og viðgerðir á verkstæðum, viðgerðir hjá véladeild og framkvæmdir hjá viðskiptavinum, hérlendis sem erlendis.

„Þessi vottun skiptir að sjálfsögðu máli fyrir alla viðskiptavini Héðins. Hún skilar sér í bættu skipulagi, betri skráningu og meiri rekjanleika. Í mörgum stærri verkefnum, ekki síst fyrir orkugeirann og stóriðjuna, er gæðavottun ein af forsendum þess að takast þau á hendur. Sömuleiðis er mikilvægt að hafa þessa vottun frá jafn virtu fyrirtæki og BSI þegar kemur að verkefnum erlendis,“ segir Guðmundur ennfremur.

Hin formlega staðfesting BSI á því að gæðakerfi Héðins uppfylli ISO 9001 er upphafið á stöðugu aðhaldi með verkferlum, til að tryggja að fyrirtækið mæti ávallt kröfum staðalsins. Gæðastjóri Héðins hefur umsjón með þeirri vinnu og sömuleiðis munu sérfræðingar BSI koma með reglulegu millibili til að kanna stöðuna.

Héðinn framleiðir ýmsar vélar og tæki sem þurfa að uppfylla evrópska staðla og tæknisamþykki sem Héðni ber að CE merkja því til staðfestingar. Vottun ISO 9001:2008 eykur trúverðugleika slíkra staðfestinga sem hluti af úttektinni.