Fréttasafn



  • Mannvirki

14. jún. 2010

Nýbreytni SI í iðnmeistaranámi

Samtök iðnaðarins hafa undanfarin missiri beitt sér fyrir endurnýjun iðnmeistaranáms. Á síðasta Menntadegi iðnaðarins, í febrúar sl., voru áherslurnar kynntar. Tryggja þarf að þekking og færni iðnmeistara sé í samræmi við kröfur markaðarins.

Hugmyndir SI hafa verið kynntar víða, m.a. í menntanefnd SI, menntamálaráðuneytinu og nú síðast hjá starfsgreinaráði farartækja- og flutningsgreina.

Stöðugt eru gerðar meiri kröfur til iðnfyrirtækja. Þau þurfa að uppfylla margvíslegar kröfur markaðar og yfirvalda. Starfsemi þeirra er háð ýmsum skilyrðum, m.a. öryggis- og heilbrigðisáætlunum. Í byggingariðnaði eru kröfurnar strangari en í mörgum öðrum greinum. Tryggja þarf að sá sem lýkur iðmeistaranámi hafi á takteinum færni og þekkingu til þess að reka fyrirtæki með hliðsjón af þessum kröfum. Gæðakerfi verktaka og alþjóðlegir stjórnunarstaðlar eru notuð sem vinnutæki.

Samtök iðnaðarins leggja til þriggja skrefa nám iðnmeistara. Fyrsta skrefið felur í sér meistarapróf sem þjóna á flestum iðngreinum. Annað skrefið er sértækt nám fyrir einstakar iðngreinar og iðngreinaflokka. Þriðja skrefið felur í sér byggingastjóraréttindi og hugsanlega sambærileg sértæk réttindi í öðrum iðngreinaflokkum.

Iðnmeistaranámið skal gegnsýrt af gæðahugsun. Námskrá, námsefni, kennsla og aðrir þættir menntunarinnar skulu metnir á eins hlutlægan hátt og kostur er. Fýsilegt er að nota til þess gæðakerfið ISO 9001.

Vonir SI standa til þess að unnt verði að ýta breyttu iðnmeistaranámi úr vör haustið 2010. Tækniskólinn hefur átt viðræður við menntamálaráðuneytið þar um.

Sjá nánar um tillögur SI að nýbreytni iðnmeistaranáms: http://www.si.is/meistaranam/index.htm