Fréttasafn



  • Viðhald fasteigna

5. júl. 2010

Nýr skattaafsláttur vegna viðhald fasteigna

Kostnaður vegna viðhalds fasteigna er nú frádráttarbær frá skatti einstaklinga. Þetta er nýjung sem kemur til viðbótar 100% endurgreiðslu VSK af vinnu á byggingastað. Endurgreiðslurnar eru tímabundnar og er ætlað að hvetja fólk til framkvæmda.

„Þetta er mikilvæg hvatning til einstaklinga sem hyggjast breyta eða bæta eigið húsnæði. Skattafslátturinn nýtist líka fyrir þær framkvæmdir sem ráðist hefur verið í frá áramótum og það er ekki eftir neinu að bíða fyrir þá sem hyggja á viðhaldsframkvæmdir“ segir Friðrik Ágúst Ólafsson hjá Samtökum iðnaðarins. „Við væntum mikils af þessu framtaki ráðherra og búumst við að margir nýti tækifærið og nýti sér þennan skattaafslátt og ekki spillir fyrir að auðvelt er að fá iðnaðarmenn til starfa. Þetta er tímabundin ráðstöfun og um að gera fyrir fólk í framkvæmdahug að grípa gæsina meðan hún gefst.“ segir Friðrik ennfremur.

Með þessu móti ætti að vera unnt að örva atvinnustarfsemi á sviði mannvirkjagerðar og um leið að draga úr svartri vinnu. Það má því með sanni segja að nú sé gullið tækifæri fyrir alla þá sem eru í framkvæmdahug og vilja bæta og laga eigið húsnæði hvort sem er íbúðir eða sumarhús.

Heimilt er að draga fjárhæð sem varið er til vinnu við endurbætur eða viðhald á íbúðarhúsnæði til eigin nota og frístundahúsnæði frá tekjuskattsstofni að ákveðnu hámarki. Auk viðhalds fasteigna nær heimildin líka til vinnu vegna lóðaframkvæmda. Heimild þessi mun koma til frádráttar tekjuskattsstofni við álagningu opinberra gjalda á árunum 2011 og 2012 vegna tekjuáranna 2010 og 2011, að hámarki kr. 200.000 hjá einhleypingi eða kr. 300.000 hjá hjónum og sambúðarfólki.