Fréttasafn



  • Tryggvi Lárusson þróunarstjóri og Eiríkur Sveinn Hrafnsson framkvæmdastjóri Greenqloud

10. ágú. 2010

Íslenskt fyrirtæki í hópi 11 heitustu sprotafyrirtækja heims

 

Nýtt íslenskt sprotafyrirtæki í hugbúnaðargeiranum, Greenqloud ehf., mun opna fyrsta umhverfisvæna tölvuský heims síðar á þessu ári. Þótt þessi nýstárlega vara Greenqloud hafi ekki enn verið opnuð almenningi hefur fyrirtækið vakið mikla athygli bæði innanlands og utan.

Í júní sl. var Greenqloud valið í hóp ellefu heitustu sprotafyrirtækja heims á sviði tölvuskýja af tæknivefnum GigaOm.com, sem hefur um tvær milljónir lesenda. Frétt um valið var fyrst birt á vefnum GigaOm.com, en var síðar endurbirt á mörgum öðrum vefjum, eins og New York Times, Salon og Fortune. Auk þess var Greenqloud boðið til San Francisco á ráðstefnuna Structure 2010 í lok júní þar sem það kynnti framtíðarsýn sína fyrir tölvugeirann og fyrirtækið.

Þessi heiður, sem Greenqloud var sýndur, kemur í kjölfar fleiri mikilvægra áfanga sem hið unga og nýstárlega fyrirtæki náði strax á fyrstu mánuðum starfsemi sinnar. Í mars, aðeins mánuði eftir að Greenqloud ehf. var formlega stofnað, varð fyrirtækið í þriðja sæti í alþjóðlegri lyfturæðukeppni MIT, sem haldin var í Reykjavík. Mánuði síðar var Greenqloud valið ásamt fimm öðrum framúrskarandi íslenskum sprotafyrirtækjum til að halda kynningu á fjárfestaþinginu SeedForum og í maí fékk Greenqloud styrk frá Tækniþróunarsjóði, en í því felst mikil viðurkenning. Tölvuský eins og það sem reenqloud býður uppá snýst um að bjóða vélbúnað (miðlara, geymslupláss, net o.fl.) sem hýstur er í gagnaverum sem þjónustu í sjálfsafgreiðslu. Þetta getur haft gríðarlegan sparnað í för með sér fyrir fyrirtæki, því þau þurfa þá ekki að greiða háar fjárhæðir fyrir vélbúnað, borga þannig aðeins fyrir notkun hverrar klukkustundar og geta stækkað og minnkað við sig eins og þau vilja án nokkurra skuldbindinga. Opin tölvuský eins og Greenqloud (e. Public Cloud), má hugsa sem öruggan og óendanlega stækkanlegan (e. elastic) tölvusal sem viðskiptavinurinn ræður sjálfur yfir.

Sparar orku og peninga

Tölvuský eru ekki beinlínis ný af nálinni, a.m.k. ef litið er til þeirrar öru þróunar sem að jafnaði á sér stað í tölvu- og hugbúnaðargeiranum. Hvað er það þá sem vekur svo mikla athygli við vöru og hugmyndafræði Greenqloud? Hugbúnaður og vélbúnaður Greenqloud verður keyrður alfarið innan íslensku gagnaveranna, sem standa vel að vígi á heimsvísu vegna þeirrar endurnýjanlegu orku sem hér er að finna sem og hentugs hitastigs sem dregur úr orkuþörf við kælingu búnaðarins. Þannig nýtir fyrirtækið einstakar aðstæður sem Ísland eitt státar af auk þeirra öflugu nettenginga sem nú eru í boði milli Íslands, Evrópu og Norður-Ameríku.

Greenqloud mun leigja rými í nýjum og væntanlegum gagnaverum hérlendis fyrir vélbúnað sinn, sem hugsanlega verður smíðaður úr íslensku áli, og bjóða fyrirtækjum og almenningi hvar sem er í heiminum aðgang að miðlurum, gagnaplássi, neti o.fl. Hugmyndafræði Greeenqloud byggist á því að ná betri orkunýtingu en verið hefur, auk þess sem búnaðurinn sjálfur er eins umhverfisvænn og kostur er. Að sögn Eiríks Sveins Hrafnssonar, framkvæmdastjóra Greenqloud, er meðalnýting fyrirtækja á eigin vélbúnaði ekki nema um 3-4%. Fyrirtæki greiði þannig óþarflega mikið fyrir sjálfan búnaðinn og eyði hlutfallslega mun meiri orku en þörf er á. 

Notendur sjá eigin orkusparnað

Greenqloud vill hámarka þessa nýtingu og verður viðskiptavinum fyrirtækisins t.d. boðið upp á mælaborð á skjánum sem sýnir tölfræði yfir hana jafnóðum. Viðskiptavinir Greenqloud munu þannig geta séð nákvæmlega hversu mikla orku þeir nota og hversu mikinn útblástur þeir hafa sparað miðað við það svæði sem þeir búa á. Þessi þjónusta er lykilatriði fyrir erlend fyrirtæki sem að þurfa að sýna fram á minnkaða losun gróðurhúsalofttegunda til að forðast kolefnaskatta. Til að sýna fram á þetta hefur Greenqloud komið sér upp gagnagrunni yfir svæðisbundna orkuöflun í heiminum og samsetningu hennar.

Ekki er aðeins reiknað með að viðskiptavinir nýti sjálfir þjónustu Greenqloud með beinum hætti, heldur er einnig gert ráð fyrir að fyrirtæki nýti sér þennan aðgang til endursölu, t.d. með því að bjóða öðrum afritunarþjónustu (e. Backup), vefhýsingu o.fl. Stærsta fyrirtækið á þessum markaði á heimsvísu í dag er Amazon, sem flestir þekkja gegnum bóksölu á netinu. Eiríkur telur Greenqloud í góðri stöðu til að bjóða notendum samkeppnishæf verð miðað við þau sem Amazon býður í dag auk þess að koma með ýmsar nýjungar inn á þennan markað. Helstu markaðssvæði Greenqloud eru Evrópa og N-Ameríka en því hefur verið spáð að tölvuskýsmarkaðurinn muni velta um eða yfir 8.4 milljörðum dollara árið 2013.

Losar jafnmikið koldíoxíð og öll flugumferð

Eiríkur segir fáa hafa áttað sig á að samskipta- og tölvuiðnaðurinn er á hraðri leið með að verða einn stærsti valdur útblásturs gróðurhúsalofttegunda í heiminum. “Sum af virtustu ráðgjafafyrirtækjum Bandaríkjanna hafa spáð að það muni gerast fyrir árið 2020 ef ekkert verður að gert. Nú þegar ber samskipta- og tölvuiðnaðurinn ábyrgð á 2% af óþarfa losun koldíoxíðs í heiminum sem jafngildir mengun allrar flugumferðar.

Tölvuský, og þar með internetið, vex hreinlega of hratt til að annað en breyting á orkugjöfum gagnavera heims leysi vandann. Í ljósi þessa er Ísland í einstakri stöðu vegna sérstöðu sinnar. Með tölvuskýi Greenqloud vonumst við til að vekja athygli á þessu vandamáli og sérstöðu landsins. Við væntum þess að við það verði gagnaverin hér á landi fyrr starftæk og sýnilegri umheiminum. Einnig er möguleiki á að mun meiri gjaldeyristekjur og innlend störf fáist fyrir hvert megawatt rafmagns en ella,” segir Eiríkur Sveinn Hrafnsson, framkvæmdastjóri Greenqloud.

Leita að forriturum og stærri fjárfestum

Greenqloud er dæmi um eitt af mörgum framúrskarandi fyrirtækjum í vaxandi hugverkaiðnaði Íslands og mætti kalla það félagslegt framfara- og umhverfistæknifyrirtæki. Hugmyndin kviknaði vegna kreppunnar og hefur verið í undirbúningi í tæp tvö ár en í ljósi liðinna atburða mætti teljast kaldhæðið að skrifstofa Greenqloud er í fyrrum höfuðstöðvum Baugs í Grjótaþorpinu þar sem nokkur nýsköpunarfyrirtæki hafa tekið sér bólfestu. Greenqloud var formlega stofnað í febrúar á þessu ári af Eiríki Sveini Hrafnssyni framkvæmdastjóra og Tryggva Lárussyni þróunarstjóra. Þeir hafa lengi unnið saman, en þeir stofnuðu ásamt öðrum sitt fyrsta hugbúnaðarfyrirtæki, Idega, fyrir tíu árum og urðu fyrstir Íslendinga til að opna frumkóða (e. Open Source) á stóru íslensku hugbúnaðarkerfi þegar þeir settu allan hugbúnað Idega frjálsan og ókeypis út á netið á slóðinni http://idega.org. Sá hugbúnaður keyrir meðal annars Rafræna Reykjavík, Rafrænt Seltjarnarnes, Rafræna Neytendastofu og Golf.is ásamt öðrum lausnum hérlendis og erlendis. Stofnfjárfestar Greenqloud koma bæði úr orkuframleiðslugeiranum á Íslandi og hýsingarþjónustugeiranum.

Fyrirtækið leitar nú bæði að fleiri forriturum í vinnu og stærri fjárfestum. Áhugasömum er bent á að hafa samband með tölvupósti á info@greenqloud.com.