Fréttasafn  • Ný tækni

16. ágú. 2010

Er tækninám dýrt?

Er tækninám dýrt?

Eftir Inga Boga Bogason

 
Stjórnvöld eru nauðbeygð til að taka misvinsælar og afdrifaríkar ákvarðanir um öll skólastig. Verk- og tæknimenntun er dýr menntun og því sérstaklega undir smásjánni. Það er alltof dýrt og óskilvirkt að ætlast til þess að verknámsskólar séu úrræði fyrir slaka eða ráðvillta nemendur. Við þurfum þvert á móti miklu betri nemendur í verknám; við þurfum rjómann þangað. Það er góður kostur fyrir þá sem hyggjast nema verk- og tæknifræði að ljúka fyrst iðnnámi. Við eigum marga „afstrakt“ verk- og tæknifræðinga sem vinna frábært verk, en við höfum þörf fyrir miklu fleiri sem á námsferlinum hafa tekið sundur bílvél eða rennt og snittað. Spyrjið þá sem reka útflutnings- og framleiðslufyrirtæki eins og Marel, Marorku og Héðin.

Tæknimenntakerfið okkar er gott, bæði á framhalds- og háskólastigi. En það er ekki nógu öflugt í tvennum skilningi: Of fáir nemendur brautskrást þaðan og kerfið sjálft er ekki nógu sveigjanlegt. Þarna má vissulega bæta og hagræða. Nemar ættu í upphafi náms að fá þekkingu og færni úr atvinnulífinu metna. Fólk lærir ekki bara í skóla. Fyrirtækin okkar eru öll kennslufyrirtæki, hvert á sinn hátt. Það er lenska að líta fyrst til iðn- og starfsnáms þegar hreyfa þarf við og hagræða í menntakerfinu. Hve oft höfum við ekki heyrt í umræðunni að iðnnámið sé fremur fyrir þá sem eru ekki á bókina. Hví ætti iðnnám að sætta sig við slíkan málflutning? Hvers vegna eiga verkmenntaskólar að bjóða sérúrræði fyrir þá sem eru slakir við lestur og skrift? Af hverju er bóknámsskólunum – sem kenna einmitt fyrst og fremst lestur og skrift – ekki gert kleift að rækja betur þetta hlutverk?

Iðnnám er dýrt miðað við almennt bóknám. Munurinn á t.d. stúdent og rennismið er hins vegar sá að rennismiðurinn hefur hefur eftir fjögurra ára framhaldsskólanám aflað sér starfsmenntunar sem nýtist honum strax en sá sem hyggst t.d. ljúka kennaranámi á að loknu stúdentsprófi eftir þriggja til fimm ára háskólanám að prófgráðu sem skilar honum færni á vinnumarkaði. Rennismiðurinn þarf 4 ár til að ljúka starfsmenntun en stúdentinn 7-9 ár til hins sama. Hvort starfsnámið er þá dýrara? Tækninám er dýrmætt. Iðnmenntun og verkfræðimenntun leiðir beint til mikillar og sérhæfðrar verðmætasköpunar. Því munu hugsanlegar sparnaðarráðstafanir í tæknimenntun hafa bein áhrif á samkeppnishæfni fyrirtækja, afkomumöguleika þeirra, starfsfólks og tekjumyndun ríkissjóðs til langs tíma. Spyrjið aftur þá sem reka fyrirtæki eins og Marel, Marorku og Héðin.

Við þurfum að auka verðmætasköpun, auka framleiðni, auka útflutning til þess að skapa sterk fyrirtæki og auka tekjur starfsfólks og ríkis. Og við þurfum að geta boðið ungu fólki upp á samfélag þar sem það fær notið frumkvæðis síns og athafnavilja. Að öðrum kosti flæmum við það burt. Öflugur hlekkur í keðjunni sem togar þjóðina aftur á lappir er mannauðurinn, rétt og vel menntað fólk til verðmætra starfa.

Morgunblaðið 21. júlí 2010