Fréttasafn



  • Kynningarfundur fyrir atvinnuleitendur í Stika

19. ágú. 2010

Tækninám fyrir atvinnuleitendur

 

Kynningarfundur um  tækninám fyrir atvinnuleitendur  var haldinn í Stika ehf. í dag.  Tæplega 20 manns mættu og hlýddu á tilboð Vinnumálastofnunar og fræddust um starfsemi fyrirtækisins. 

Vinnumálastofnun í samstarfi við Samtök iðnaðarins, SA, Viðskiptaráð, háskóla landsins og tækni- og hugverkafyrirtæki  standa að  verkefni sem felur í sér að gefa áhugasömum atvinnuleitendum tækifæri til náms í tækni- og raungreinum.  Vinnumálastofnun greiðir skóla- og skráningargjöld í eitt skólaár fyrir atvinnuleitendur sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins og eru á atvinnuleysisskrá. 

Samtök iðnaðarins hafa skipulagt fundi fyrir atvinnuleitendur hjá þeim fyrirtækjum sem koma að átakinu en þau eru: Ístak hf., Stiki ehf., Roche NimbleGen, Bláa lónið, CCP hf., Héðinn hf., Marel Food, Marorka, ORF Líftækni og Vélaverkstæði Hjalta Einarssonar. 

Fyrsti fundurinn var haldinn nú í morgun hjá Stika þar sem Svana Helen Björnsdóttir, forstjóri fyrirtækisins ræddi um þörf atvinnulífsins fyrir tæknimenntaða einstaklinga og hvatti fundargesti til að nýta þetta tækifæri til menntunar enda væri skortu á hæfu starfsfólki í upplýsingatæknigeiranum. Hún lagði einnig áherslu á fjölbreytileika þessara starfa sem væru bæði skapandi og gefandi auk þess að vera vel launuð.

Boðið er upp á nám í fjölmörgum greinum við Háskólann í Reykjavík og Háskóla Íslands, auk náms við Háskólann á Bifröst á frumgreinasviði og námslínu um nýsköpun og við frumgreinasvið Keilis.

Hugverkaiðnaðurinn er orðinn ein af stoðum íslensks viðskiptalífs og var árið 2009 fimmtungur af útflutningstekjum Íslendinga. Þrátt fyrir þetta er fjöldi tæknimenntaðra hér á landi langt undir meðallagi miðað við nágrannalönd okkar. Þetta kemur fram í gögnum Hagstofu Evrópusambandsins (Eurostat), en þar eru þjóðir eins og Danir, Finnar og Írar mjög ofarlega á lista.

Takmörkuð nýliðun tæknimenntaðs fólks hamlar vexti margra greina iðnaðarins, sérstaklega í hugverkaiðnaðinum. Fyrirtæki í Samtökum iðnaðarins hafa vaxandi áhyggjur af þessu. Skortur á tæknimenntuðu fólki dregur úr möguleikum á uppbyggingu iðnaðarins og arðbærum og verðmætum störfum. Mikil eftirspurn  er eftir  slíkri menntun hjá fyrirtækjum og á hún á eftir að aukast enn frekar á næstu árum.  Gert er ráð fyrir að það þurfi um 3.000 nýja tæknimenntaða einstaklinga á íslenskan vinnumarkað innan hugverkaiðnaðar á næstu þremur árum.