Fréttasafn  • Lög

26. ágú. 2010

Dæmdar verðbætur vegna framkvæmda við Álftanessundlaug

Með dómi héraðsdóms Reykjaness 17. ágúst sl. var fallist á kröfu Íslenskra aðalverktaka (ÍAV) um að fyrirtækið fengi verðbætur vegna byggingar sundlaugar og viðbyggingar við íþróttahús á Álftanesi. Var Fasteignafélagið Fasteign hf. dæmt til að greiða ÍAV 112 milljónir króna og þar af nema verðbæturnar skv. dómnum 105 milljónum króna.

Samtök iðnaðarins fagna þessari niðurstöðu héraðsdóms. Sigurður B. Halldórsson, lögfræðingur SI segir vega þungt í dómnum það samkomulag sem SI gerði við Reykjavíkurborg í mars 2008. Við væntum þess að dómurinn verði staðfestur í Hæstarétti og fleiri verktakafyrirtæki fái leiðréttingu á sínum samningum í kjölfarið.

Tildrög málsins voru þau að Fasteign hf. samdi við ÍAV um verkið í mars 2008 í kjölfar útboðs í desember 2007. Samningsfjárhæðin var tæpar 604 milljónir og var m.a. tekið fram í samningnum að engar verðbætur yrður greiddar á samningstímanum.

Deila fyrirtækjanna í kjölfarið snérist síðan um það hvort forsendubrestur hafi orðið á verksamningi aðila frá mars 2008 og hvort 36. gr. samningalaga yrði beitt þar sem bersýnilega hafi verið ósanngjarnt að bera fyrir sig ákvæðið í samningnum um að engar verðbætur yrður greiddar á samningstímanum.

Taldi héraðsdómur, sem var fjölskipaður, að forsenda samningsins hafi verið sú að verðlag hafi verið stöðugt á meðan á verktímanum stæði, en vegna þeirra miklu hækkana, á byggingavísitölu og gengi íslensku krónunnar, hafi forsendur allar brostið fyrir samþykki þess að fjárhæðir tilboðsins á verktímanum væru ekki verðbættar. Þar sem miklar hækkanir urðu á verktímanum taldi dómurinn ósanngjarnt að bera umrætt ákvæði um engar verðbætur í samningnum fyrir sig.

Héraðsdómur vísaði m.a. til þeirrar niðurstöðu matsmanna að óvissuástandið á byggingamarkaði á árinu 2008 vegna óvæntrar efnahagsþróunar innanlands hafi orðið til þess að fleiri byggingaraðilar með óverðbætta verksamninga, hafi fengið leiðréttingar. Í því sambandi var sérstaklega vísað til þess að Samtök iðnaðarins hefðu beitt sér fyrir hönd sinna félagsmanna og samkomulag náðst við Reykjavíkurborg, einn stærsta verkaupa landsins, um að taka upp verðbætur miðaðar við hækkun byggingarvísitölu og hafi samkomulag þess efnis verið undirritað 1. mars 2008.

Málinu verður áfrýjað til Hæstaréttar.