Fréttasafn  • Rafeyri hlýtur D-vottun

31. ágú. 2010

Rafeyri hlýtur D-vottun SI

Rafeyri ehf. hefur staðist úttekt á fyrsta þrepi áfangaskiptrar gæðavottunar Samtaka iðnaðarins og hlotið D-vottun. Hannes Garðarsson, skrifstofu- og öryggisstjóri fyrirtækisins tók við vottuninni. 

D-vottun er fyrsti hluti gæðavottunarkerfis SI sem tekið er upp í fjórum áföngum. Í því felst að rekstur fyrirtækis er gerður skilvirkari. Fyrirtækið fer í gegnum stefnumótun þar sem afkoma hvers verks eða vöru er skilgreind. Við þetta eykst framleiðni og fyrirtækin skila meiri hagnaði.

Hannes Garðarsson, skrifstofu- og öryggisstjóri fyrirtækisins segir ánægjulegt að fyrirtækið hafi náð þessum áfanga. „D-vottunin snýst um að hafa grundvallaratriði verktaka í góðu lagi og hefur Rafeyri unnið að því marki undanfarin misseri. Það er því ljúft að fá staðfestingu á að sómasamlega sé staðið að verki hér á bæ. Rafvirkjarnir skila góðu verki en það er vart nægilegt ef umgjörðin er skökk og skæld. Verkbókhald og verkstjórn verður að vera markviss, öryggi starfsmanna tryggt og ráðningarmál formleg.“

Hann segir það vaxandi kröfu verkkaupa að verktakar standist kröfur um góða vinnuhætti og því æskilegt að geta flaggað skjali því til sönnunar. Hins vegar sé það aðeins vitnisburður og mikilvægasti ávinningurinn sé betra og vandaðra starf sem skilar sér í aukinni framlegð og ekki síður í aukinni starfsánægju og metnaði.

Hjá Rafeyri starfa að sögn Hannesar kraftmiklir og metnaðarfullir starfsmenn með margvíslega menntun. „Rafvirki, vélstjóri, vélvirki, rafvélavirki, rafiðnfræðingur, iðnaðarrafvirki, vélfræðingur, rafvélavirkjameistari og vélvirkjameistari eru meðal þeirra réttindaheita sem prýða starfsmennina.“

Rafeyri var stofnað 1994 upp úr rafmagnsdeild Slippstöðvarinnar og sinnir að stærstum hluta þjónustu við útgerðir með áherslu á fyrirtæki og útboðsverk. Sérstök áhersla er á háspennurafvirkjun. Síðustu ár hefur einnig verið starfrækt tæknideild sem annast tilboðsgerð, teikni- og hönnunarvinnu ásamt því að leiða tæknihluta verka.

Starfssvæði Rafeyrar er nánast um allt land þó langmest af verkefnunum séu staðsett á Eyjafjarðarsvæðinu. Einnig hafa starfsmenn fyrirtækisins sinnt verkefnum í nálægum löndum. Stærstu verkefnin í sögu fyrirtækisins eru stækkun og endurbætur á
Lagarfossvirkjun og uppbygging aflþynnuverksmiðju Becromal í Krossanesi.
Ársstörfum hefur fjölgað umtalsvert undanfarin ár og 2009 voru þau um 45.