Fréttasafn  • Karahnjukastifla

31. ágú. 2010

Staðlausir stafir um orkusölu til stóriðju

Í netútgáfu Iceland Review þann 26. ágúst síðastliðinn ritar Bjarni Brynjólfsson, ritstjóri útgáfunnar makalausa grein undir fyrirsögninni „The Energy Scandal“. Orðfæri greinarinnar allt er til marks um með hversu hlutdrægum hætti höfundur nálgast viðfangsefni sitt. Slík vinnubrögð eru nokkuð sem ritstjóri kynningarrits á borð við Iceland Review ætti að varast. Greinin er jafnframt full af rangfærslum sem rétt er að leiðrétta. 

Höfundur heldur því meðal annars fram að erlendar lántökur Landsvirkjunar og Orkuveitu Reykjavíkur í tengslum við byggingu raforkuvirkjana vegna stóriðju séu að sliga fyrirtækin. Eins og glögglega hefur komið fram í umfjöllun um væntanlegar raforkuverðshækkanir OR er sá vandi ekki rakinn til orkusölu til stóriðju heldur þeirrar staðreyndar að verðlagning veituþjónustu fyrir almenning hafi engan veginn þróast í takt við almennt verðlag. Raforkuverð til heimila hafi þannig hækkað um 23% frá ársbyrjun 2004 á sama tíma og raforkuverð til stóriðju hafi hækkað um 116%. Hækkun vísitölu neysluverðs fyrir sama tímabil nemur 57%. Þá er jafnframt tekið fram í tilkynningu OR að raforkusala til stóriðju sé arðsamasta starfsemi fyrirtækisins í dag. Vandamál félagsins verða því vart rakin til þess hluta starfseminnar og miklu fremur hægt að halda því fram að raforkusala til stóriðju hafi greitt niður raforkukostnað heimilanna. Raunorkuverð til heimila hefur lækkað jafnt og þétt á undnaförnum árum samhliða aukinni orkusölu til stóriðju. Samkvæmt úttekt hagfræðistofnunar fyrir iðnaðarráðuneytið nam raunlækkun raforkuverðs til heimila um 20-40% frá 1980-2006. Þá sýnir nýleg úttekt Landsvirkjunar að raforkuverð til Reykvíkinga hefur staðið í stað að raungildi frá 2002, að teknu tilliti til síðustu hækkunar. Á sama tíma hefur orkusala til stóriðju nær þrefaldast og verð til stóriðju hækkað um 165%. Hækkun verðlags á sama tíma nemur u.þ.b. 55%.

Þá er því haldið fram í greininni að bygging Kárahnjúkavirkunar og Fjarðaáls í Reyðarfirði hafi valdið verulegum skaða á íslensku efnahagslífi og þær framkvæmdir skýri að hluta það hvernig hafi farið. Þessari söguskoðun hefur áður verið haldið á lofti en þegar umfang framkvæmdanna er skoðað í samhengi við önnur umsvif hagkerfisins á sama tíma má sjá að hún á ekki við nokkur rök að styðjast:

  • Heildarfjárfesting í Kárahnjúkavirkjun og Fjarðaáli nam u.þ.b. 220 milljörðum króna á árabilinu 2003-2008.
  • Framkvæmdin er um 12% af heildarfjárfestingum hér á landi á þessu tímabili.
  • Hún nemur um 3,4% af landsframleiðslu á sama tíma.
  • Erlendar lánveitingar íslensku bankanna hingað til lands jukust hins vegar um tæplega 4.000 milljarða frá ársbyrjun 2003 til ársloka 2007 en árslokatölur fyrir 2008 eru ekki aðgengilegar.
  • Skuldir heimilanna við bankakerfið jukust um 775 milljarða á sama tímabili.
  • Frá árinu 2005 til 2009 jukust vöruútflutningstekjur þjóðarinnar um 306,5 milljarða. Þar af er tæpur helmingur vegna aukins útflutnings áls. Álið hefur því skipt sköpum í bættum á vöruskiptajöfnuði.

Það gefur því auga leið að framkvæmdirnar við Kárahnjúka og Fjarðaál geta seint talist meginástæður fyrir þeirri ofþenslu sem hér gekk yfir árin 2004-2007. Í dag eiga þessar fjárfestingar og áliðnaðurinn í heild hins vegar drjúgan þátt í jákvæðum vöruskiptajöfnuði hér á landi. Orkusala til áliðnaðarins er jafnframt ein arðsamasta starfsemi orkufyrirtækjanna í dag.