Of snemmt að blása kreppuna af
Nýjar tölur um landsframleiðslu á öðrum ársfjórðungi þessa árs eru mikið áhyggjuefni að mati Bjarna Más Gylfasonar hagfræðings Samtaka iðnaðarins en þær gefa til kynna að hagkerfið sé enn í samdrætti og framleiðsla að minnka. „Fyrir utan samneysluna eru allir undirliðir landsframleiðslunnar að dragast saman og raunar er núna að mælast mesti samdráttur í einkaneyslu og landsframleiðslu milli ársfjórðunga síðan áfallið reið yfir seinni hluta árs 2008 eða ríflega 3%. Þetta er þvert á þau skilaboð sem stjórnmálamenn eru að senda okkur um að botninum sé náð og að betri tíð sé framundan. Vissulega væri óskandi að svo væri en hagtölur benda því miður til annars,“ segir Bjarni Már.
Aðrir þættir horfa til betri vegar. Störfum fjölgaði í upphafi árs, atvinnuleysi hefur verið að minnka, verðbólga að lækka og gengið að styrkjast. Bjarni Már bendir hins vegar á að minnkandi verðbólga og lækkandi vextir sé samt skýrt merki um samdráttinn í hagkerfinu. „Kannski erum við nú að súpa seyðið af skattahækkunum síðasta árs og þeim töfum sem orðið hafa á fyrirhuguðum stórframkvæmdum. Einkaneyslan í fyrra var líka óvenju há vegna mikils útstreymis fjármagns úr séreignalífeyrisjóðum og ríkissjóður fékk þar óvæntar skatttekjur. Það er skammgóður vermir að halda áfram á þeirri braut. Einnig er rétt að benda á að samdrátturinn í fyrra varð minni en ella vegna veikrar stöðu krónunnar og tilsvarandi aukningar í útflutningstekjum. Án fjárfestingar og uppbyggingar er ekki hægt að auka útflutning mikið meira,“ segir Bjarni Már.
Aðspurður um hvaða aðgerðir þurfi að grípa til snúa þessari þróun við segir Bjarni Már að fyrst þurfi að leggja til hliðar allar hugmyndir um frekari skattahækkanir og raunar þyrfti að lækka þá. „Einkaneyslan er drifkraftur efnahagsstarfseminnar og skattheimtan dregur allan mátt úr henni. Þá er nauðsynlegt að lækka vexti enn frekar og raunar óskiljanlegt að það hafi ekki verið gert með kröftugri hætti enda lítil hætta á veikingu krónunnar með gjaldeyrishöftin. Þá þarf að koma stórframkvæmdum í gang og leggja áherslu á arðbærar vegaframkvæmdir. Þetta er hægt en ekki með aðgerðaleysi og aukinni skattheimtu,“ segir Bjarni Már að lokum.