Lög um iðnaðarmálagjald samþykkt
Alþingi hefur samþykkt breytingu á lögum um iðnaðarmálagjald. Gjald skal samkvæmt lögum þessum síðast lagt á vegna rekstrarársins 2009 og renna tekjur af því í ríkissjóð. Tekjunum skal varið til verkefna á sviði menntunar og nýsköpunar í iðnaði eftir því sem nánar er ákveðið í fjárlögum.
Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) kvað upp dóm um lögmæti iðnaðarmálagjalds í apríl síðastliðnum og komst þá að þeirri niðurstöðu að lögin um iðnaðarmálagjaldið stæðust ekki ákvæði Mannréttindasáttmála Evrópu.
Hæstiréttur Íslands hafði tvívegis fjallað um málið og komist að annarri niðurstöðu.
Samtök iðnaðarins áttu ekki aðild að dómsmálunum enda þótt þau vörðuðu gjald sem iðnaðurinn í landinu greiðir og rann til þeirra. Ríkið var varnaraðili í málinu enda fjallað um lög frá Alþingi sem hafa verið í gildi um áratugaskeið.
Samtök iðnaðarins fagna því að niðurstaða sé fengin í málið og munu áfram leggja á það höfuðáherslu að þjónusta við félagsmenn og barátta fyrir hagsmunum iðnaðarins verði öflug í framtíðinni.