Fréttasafn



  • Sæfiefni

13. sep. 2010

Kynningarráðstefna um sæfiefni

Kynningarráðstefna um sæfiefni var haldin 25. ágúst síðastliðinn. Að fundinum stóðu Umhverfisstofnun, Samtök iðnaðarins, Samtök verslunar og þjónustu og Félag atvinnurekenda. Um 40 manns sóttu fundinn.

Til sæfiefna flokkast ýmis sótthreinsandi efni til yfirborðsmeðhöndlunar og til nota í matvælaframleiðslu, iðnaði, innan heilbrigðisgeirans og á stofnunum, rotvarnarefni til að tryggja geymsluþol efna eða til varnar vexti örvera (matvæli eru undanskilin), útrýmingarefni t.d. skordýraeyðar, nagdýraeitur, einnig gróðurhindrandi efni sem notuð eru í botnmálningu skipa.

Til ráðstefnunnar var boðað til að kynna framleiðendum og innflytjendum sæfiefna þær breytingar sem verða í kjölfar tilskipunar ESB um markaðssetningu sæfiefna. Um er að ræða samræmda löggjöf um sæfiefni á evrópska efnahagssvæðinu (EES). Sækja þarf um markaðsleyfi fyrir vörur sem flokkast sem sæfiefni í þessum flokkum fyrir ákveðinn tímafrest og verður varan áhættumetin í kjölfarið, ef hún stenst matið þá fær hún markaðsleyfi í því landi sem hún var áhættumetin. Ef selja á þessa vöru í öðrum löndum innan EES þá þarf að sækja um gagnkvæma viðurkenningu á markaðsleyfinu. Ef ekki er sótt um markaðsleyfi og gagnkvæma viðurkenningu á markaðsleyfinu fyrir vöru þá verður hún ólögleg á EES. Fyrirséð er að vörum í þessum flokkum mun fækka og nauðsynlegt verður fyrir framleiðendur og innflytjendur þessara efna að fylgjast vel með tímafrestum og sækja um tilskilin leyfi tímanlega.

Þrjú erindi voru flutt á ráðstefnunni, tveir starfsmenn Umhverfisstofnunnar og tveir gestafyrirlesarar frá KemI í Svíþjóð.

Fyrsta erindið var flutt af Birgittu Í. Birgisdóttur, starfsmanni Umhverfisstofnunar, þar var fjallað ítarlega um þær vörur sem flokkast sem sæfiefni, áhættumat virkra efna til nota í sæfiefnum og aðdragandann að umsókn um markaðsleyfi.

Annað erindið var flutt af gestafyrirlesurum, Helena Casabona og Jenny Rönngren, frá KemI í Svíþjóð. Þær fjölluðu um undirbúning í Svíþjóð til að uppfylla kröfur um markaðssetningu sæfiefna samkvæmt ákvæðum tilskipunar ESB.

Í erindinu kom fram hvenær og hvernig sækja á um markaðsleyfi og gagnkvæma viðurkenningu á markaðsleyfi innan ESB, notkun miðlægs gagnagrunns sem kallast R4BP, þar sem sótt er um markaðsleyfi og þau skráð.

Í þriðja og síðast erindinu fjallaði Sigríður Kristjánsdóttir, deildarstjóri hjá Umhverfisstofnun um áhrif reglugerðarinnar á Íslandi, m.a. hvað íslensk fyrirtæki bæði framleiðendur og innflytjendur þurfa að gera vegna umsókna um markaðsleyfi og gagnkvæmrar viðurkenningar á markaðsleyfum á Íslandi og þann kostnað sem það hefur í för með sér. Einnig fjallaði hún um sæfiefni sem eru óheimil á markaði á Íslandi.

Glærur fyrirlesara er hægt að nálgast á vefsetri Umhverfisstofnunar.