Fréttasafn



  • Vatnsafl

22. sep. 2010

Fjárfestingar í forgang

 

Í þeim efnahagsörðugleikum sem Ísland gengur enn í gegnum ættu stjórnvöld að leggja allt kapp á að laða hingað erlenda fjárfesta til að stuðla að efnahagsbata, auka atvinnu og minnka atvinnuleysi. Því miður virðist það ekki vera reyndin. Nýjasta útspil stjórnvalda í Magma-málinu og ákvörðun umhverfisráðherra vegna aðalskipulags í Flóahreppi eru dæmi um stjórnsýslu sem hefur neikvæð efnahagsleg áhrif. Af svipuðum toga voru ákvarðanir um sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum SV-línu. Í öllum tilfellum voru verkefni tekin út úr eðlilegum stjórnsýsluferli og reynt að þvinga fram niðurstöðu sem þjónar þröngum pólitískum hagsmunum. Á meðan dregst kreppan á langinn og erlendir fjárfestar gerast fráhverfir Íslandi.

Magma málið

Óháð því hvaða skoðun menn hafa á kaupum Magma Energy á HS orku er ljóst að íhlutun stjórnvalda í fjárfestingu erlendra aðila Íslandi hefur neikvæð áhrif á frekari uppbyggingu atvinnulífsins og kemur óorði á Ísland sem mögulegan stað til fjárfestinga. Ennfremur ala stjórnvöld á tortryggni innanlands gagnvart þeim fáu aðilum sem eru tilbúnir að leggja traust sitt á efnahagslíf Íslands. Í opinberri umræðu gleymist gjarnan að huga að því hvaða efnahagslega gildi erlend fjárfesting hefur. Nánast allstaðar í hinum vestræna heimi er það beinlínis stefna stjórnvalda að hvetja til og skapa skilyrði fyrir erlenda fjárfesta. Ástæðan er bein tengsl við aukna verðmætasköpun og atvinnu.

Ólögmætur úrskurður

Umhverfisráðherra úrskurðaði að nýtt aðalskipulag sem gerði ráð fyrir virkjunum í neðri hluta Þjórsár væri ógilt vegna þess að framkvæmdaaðili, ríkisfyrirtækið Landsvirkjun, hefði tekið þátt í kostnaði við skipulagið. Héraðsdómur hefur nú dæmt þessa embættisfærslu ógilda. Þarna fer ráðherra fram með ólögmætum hætti til að reyna þvinga fram pólitíska hagsmuni sem felast í að koma í veg fyrir framkvæmdir og fjárfestingar á svæðinu. Frá efnahagslegu sjónarmiði er þessi íhlutun óskiljanleg. Frá umhverfislegu sjónarmiði er hún illskiljanleg enda er um að ræða afar umhverfisvænar rennslisvirkjanir með lágmarksumhverfisáhrifum.

Sagan endurtekur sig

Atburðarásin í kringum Suðvesturlínu er af sama toga og Magma-málið og skipulagsmál í Flóahreppi. Þar var Skipulagsstofnun seint á síðasta ári gert að ákveða upp á nýtt hvort ekki ætti að fara fram sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum. Skipulagsstofnun hafði áður úrskurðað að þess þyrfti ekki. Niðurstaða stofnunarinnar breyttist ekki og í janúar sl. úrskurðaði Umhverfisráðuneytið loks að sameiginlegt mat þyrfti ekki að fara fram. Efnislega breyttist ekkert en í millitíðinni var fæti brugðið fyrir orkufreka atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum og orðspor Íslands sem mögulegur fjárfestingastaður beið frekari hnekki.

Stefna stjórnvalda

Það er kveðið á um það í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar að stuðla beri að beinum erlendum fjárfestingum og gera það sem hægt er til að auka traust og trú á íslenskt efnahagslíf. Stjórnvöld hafa upp á síðkastið leitað leiða til að auka verðmætasköpun án mikils tilkostnaðar fyrir ríkið. Ekki verður annað séð en að stjórnvöld séu að gera hið gagnstæða – að minnka líkur á vexti og verðmætasköpun með talsverðum tilkostnaði.

Af þeirri braut ætti að vera auðvelt að snúa með því að hætta óeðlilegri pólitískri íhlutun og setja fjárfestingar í forgang.