Fréttasafn  • orri_hauksson

1. okt. 2010

Skattstofnar rýrna

Orri Hauksson, framkvæmdastjóri SI segir það mikið áhyggjuefni að dótturfélög erlendra fyrirtækja hér á landi séu beinlínis á flótta frá Íslandi vegna skattbreytinga á síðasta ári. „Fregnir hafa borist af fyrirtækjum sem hafa hætt hér starfsemi gagngert vegna afdráttarskatts á vaxtagreiðslur erlendra aðila. Þannig sé ríkið að verða af milljörðum skatttekjum“, segir Orri. 

Hann segir það í raun með ólíkindum að stjórnvöld skuli leggja á skatta í von um smávægilegar tekjur en sama skattlagning  rýri skattstofnana svo mikið að ríkið standi uppi með miklu minni tekjur en áður. „Ég óttast að þetta geti verið að gerast með fleiri skattstofna en afdráttarskatturinn er skýrt dæmi. Við sjáum einnig glögg merki þess að þetta sé að gerast með skatta á áfengi og enn er talað um að hækka þá“ .

„Skattkerfið okkar verður að vera einfalt en ekki síst samkeppnishæft. Flest lönd í heiminum vilja fá fjölbreytta atvinnustarfsemi til landsins en breytingar á skattkerfinu hjá okkur hafa því miður flestar stuðlað að hinu gagnstæða. Í næstu viku kemur fjárlagafrumvarp fyrir næsta ár fram og við verðum sannarlega að vona að hægt verði að snúa af þessari braut og lágmarka þann skaða sem skattahækkanir og skattaflækjur hafa valdið. Vissulega er niðurskurður hjá hinu opinbera sársaukafullur en við verðum að sníða okkur stakk eftir vexti. Einkageirinn er búinn að hagræða gríðarlega en það sama hefur ekki verið gert í viðlíka mæli  hjá hinu opinbera. Það er hugsanavilla að halda að ráðdeild hjá hinu opinbera stuðli að heildarfækkun starfa á Íslandi – þvert á móti skapar aðhald hins opinbera svigrúm hjá einkageiranum til aukinnar neyslu og fjárfestinga. Stundum gleymist að atvinnulífið er uppspretta skatttekna og fjármagna samneysluna“.