Tilraunaræktun með ljósdíóðulömpum bendir til að spara megi verulega í raforkunotkun
Samstarfsverkefni Orkuseturs og Vistvænnar Orku ehf. um tilraunaræktun með ljósdíóðulömpum bendir til að spara megi um og yfir 50% í raforkunotkun til gróðurhúsalýsingar.
Garðyrkjubændur nota um 60 GWh á ári til gróðurhúsalýsingar í atvinnuskyni sem er svipuð notkun og 12 þúsund heimili nota árlega. Hækkun raforkuverðs vegur þungt í þessari atvinnugrein en til að bæta samkeppnisstöðu greinarinnar niðurgreiðir ríkið kostnað við raforkudreifingu. Árið 2008 greiddi ríkið um 167 milljónir í niðurgreiðslur á raforkudreifiingu til greinarinnar. Það ætti því að vera hagsmunamál ríkis og garðyrkjubænda að reyna með öllum hætti að lækka raforkukostnað.
Orkusetur iðnaðarráðuneytisins og Vistvæn Orka ehf hafa verið í samstarfi um prófanir á ljósdíóðulömpum sem þróaðir eru á Íslandi. Fyrirtækið Vistvæn Orka ehf. hefur unnið að þróun á hagkvæmum gróðurhúsalömpum sem byggja á LED ljósdíóðutækni og ætlaðir eru fyrir garðyrkjubændur sem hafa matjurta- og blómarækt að atvinnu.
Fyrstu niðurstöður prófana liggja nú fyrir og gefa væntingar um að draga megi stórlega úr roforkunotkun og þar með rekstrarkostnaði garðyrkjubænda. Niðurstöður tilraunaræktunar á papriku og rósum undir LED raflýsingu í tilraunagróðurhúsi LBHÍ að Reykjum benda til þess að hægt sé að ná fram verulegum raforkusparnaði í blóma- og matjurtarækt, án þess að það komi niður á gæðum eða uppskerumagni. Raforkusparnaður reynist vera um og yfir 50% í paprikurækt og um 50% í rósarækt. Ljósdíóðulamparnir og straumgjafar stóðust einnig allar kröfur um endingu, ljósmagn, áreiðanleika og nýtni.
Þessar fyrstu niðurstöður benda því til að þessi nýja tækni geti mögulega helmingað raforkukostnað garðyrkjubænda. Hugsanlega er því hægt að spara 30 GWh í garðyrkju á Íslandi án þess að draga úr framleiðslunni. Raforkuna sem hægt væri að spara mætti nýta til að knýja um 20 þúsund rafbíla svo dæmi sé tekið.
Að lokum skal þess getið að LED ljósdíóðulampar eru umhverfisvænir og innihalda t.d ekkert kvikasilfur líkt og hefðbundnir HPS gróðurhúsalampar gera.