Fréttasafn



  • Undirritun hjá Alcan 13.2.2010

13. okt. 2010

Fjárfestingar fyrir 86 milljarða – 1300 ársverk

Í dag undirritaði Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra og Rannveig Rist, forstjóri Alcan á Íslandi hf., samning sem tengist áformum fyrirtækisins um stækkun og endurbyggingu álversins í Straumsvík.

Í tilkynningu frá Iðnaðarráðuneytinu segir að framleiðsluaukningin í Straumsvík og breytingar vegna nýrra afurða álversins er stærsta einstaka fjárfestingin í atvinnuuppbyggingu frá falli fjármálakerfisins. Henni tengist líka stór fjárfesting Landsvirkjunar við Búðarhálsvirkjun.

60 milljarðar og 620 ársverk vegna framleiðsluaukningar í Straumsvík
Sú fjárfesting sem búið er að tilkynna um vegna framleiðsluaukningar álversins í Straumsvík og nýrra og verðmætari afurða, með breytingum á framleiðslulínunni, nemur nærri 60 milljörðum króna og kallar á 620 ársverk á framkvæmdatímanum. Áætla má að framleiðsla og útflutningur muni aukast um tæplega 40 þúsund tonn auk þess sem afurðir álversins verða verðmætari.

26 milljarðar og 700 ársverk vegna Búðarhálsvirkjunar
Til að mæta orkuþörfinni fyrir þetta verkefni er Landsvirkjun að hefja framkvæmdir við Búðarhálsvirkjun. Áætlanir gera ráð fyrir að heildarfjárfesting vegna Búðarhálsvirkjunar muni nema um 26 milljörðum króna og að 600-700 ársverk skapist á byggingartíma. Samtals er því um 86 milljarða króna fjárfestingu og um 1300 ársverk á framkvæmdatímanum að ræða.

Nýr raforkusamningur sjálfstæður og aðalsamningi breytt
Með nýjum raforkusamningi sem undirritaður var 15. júní sl., milli Alcan og Landsvirkjunar, var annars vegar endursamið um verð á allri núverandi orkusölu til álversins og hins vegar samið um afhendingu á viðbótar orku (75 MW) vegna áætlaðrar framleiðsluaukningar álversins. Hinn nýi raforkusamningur kemur alfarið í stað eldri raforkusamnings milli sömu aðila en sá síðarnefndi er fylgiskjal með aðalsamningnum frá 1966.

Með þeim viðaukasamningi við aðalsamninginn sem undirritaður var í dag eru gerðar nauðsynlegar breytingar á aðalsamningnum, þannig að unnt sé að líta á aðalsamninginn frá 1966 og hinn nýja raforkusamning sem tvo sjálfstæða og ótengda samninga. Í framhaldi af undirritun hins áttunda viðaukasamnings verður hann lagður fyrir Alþingi til að veita honum lagagildi, eins og gert var á sínum tíma við aðalsamninginn frá 1966 og þá sjö viðauka sem gerðir hafa verið við hann.