Fréttasafn



  • Lög

20. okt. 2010

Eigendur tveggja fyrirtækja dæmdir fyrir brot á iðnlöggjöfinni

 

Héraðsdómur Reykjaness dæmdi í morgun eigendur tveggja fyrirtækja til greiðslu sekta vegna brota á iðnaðarlögum nr. 42/1978. Brotin fólust í því að reka ljósmyndastofu án þess að hafa meistara til forstöðu.

Forsaga málsins er sú að með bréfi, dags. 11. mars 2009, kærðu nokkrir ljósmyndarar starfsemi nokkurra fyrirtækja, þ.m.t. Brosbarna og Gamanmynda, til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Var kæran byggð m.a. á því að umædd fyrirtæki væru ekki rekin undir forstöðu meistara í ljósmyndun. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu vísaði málinu frá með bréfi 31. mars 2009 á grundvelli þess að lögreglan hefði enga lagaheimild til að stöðva reksturinn. 

Samtök iðnaðarins, f. h. ljósmyndaranna, kærðu ákvörðun lögreglustjórans um frávísun málsins til ríkissaksóknara og var vísað til þess að iðnréttindi ljósmyndara nytu lögverndar og að brot gegn iðnaðarlögum varði sektum. Hinn 25. maí 2009 felldi ríkissaksóknari ákvörðun lögreglustjóra úr gildi og lagði fyrir hann að hefja rannsókn.  Lögreglustjóri gaf svo út ákæru á hendur ákærðu 1. júní 2010.

Fyrir dómi héldu ákærðu því m.a. að ekki væri hægt að refsa þeim á grundvelli iðnaðarlaga þar sem þau væru úrelt vegna breyttrar tækni, stafrænnar ljósmyndunar.  Þannig væru ekki lengur notuð hættuleg efni við framköllun ljósmynda og því engin ástæða til að lögvernda ljósmyndun sem iðngrein. Þá töldu ákærðu að ákvæði iðnlöggjafarinnar brytu gegn atvinnufrelsi þeirra og vísuðu til 1. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar. Dómurinn féllst ekki á þessar röksemdir ákærðu.

Nálgast má dómana hér og hér.