Fréttasafn  • Raforka

16. nóv. 2010

Hagræðing í orkunotkun bygginga

Á ráðstefnu um orkunýtni í byggingum kom fram að ná má mikilli hagræðingu með því að skoða orkunotkun bygginga, minnka sóun á orku og stýra notkun.

Hér á landi hefur ekki farið mikið fyrir umræðu um orkunýtni og orkusparnað. Þessi málaflokkur hefur hins vegar verið ofarlega á baugi erlendis. Norðurlöndin hafa í ýmsu verið þar í fararbroddi og Evrópusambandið hefur sett fram markmið um allt að 20% orkusparnað árið 2020 m.v. árið 2006. Skilningur á mikilvægi þessa máls er að aukast hérlendis og þann 11. nóvember stóð iðnaðarráðuneytið fyrir ráðstefnu um orkunýtni í byggingum í samstarfi við Orkustofnun, Orkusetur, Iðntæknistofnun, Neytendastofu og Samtök iðnaðarins. Ráðstefnan var vel sótt og þar kom glögglega fram að margir möguleikar eru til að spara orku og nýta hana betur og koma þannig í veg fyrir sóun náttúruauðlinda.

Meðal fyrirlesara var Andrés Þórarinsson frá verkfræðistofunni Vista, sem sýndi fram á að með því að  kortleggja orkunotkun í húsnæði og gera úrbætur sem kosta lítið, má spara mikla fjármuni.  Nefndi hann sérstaklega einföld atriði eins og að slökkva ljós þegar ekki er þörf á lýsingu og stilla ofna þannig að ekki sé full kynding að næturlagi. Ragnar Gunnarsson frá ICEconsult greindi frá svipuðum niðurstöðum. Tók hann dæmi af 11 byggingum í eigu sama aðila. Árið 2007 þegar fyrirtækið hans fór yfir orkunotkun í byggingunum var orkusóun í þeim um 60% yfir viðmiðunarmörkum. Ári síðar var þessi sóun komin niður í 28% og árið 2009 var sóunin komin niður í 12%. Í þessu dæmi var sparnaður eigandans um 3,5 milljónir króna á ári. Einnig var fjallað um varmadælur og þá miklu möguleika sem leynast víða um land til notkunar á þeim, sérstaklega á svokölluðum köldum svæðum, þar sem ekki er aðgangur að jarðhitavatni til kyndingar. Nálgast má kynningar frá ráðstefnunni á heimasíðu Iðnaðarráðuneytis.

Helstu niðurstöður ráðstefnunnar eru að eftir miklu sé að slægjast þegar kemur að betri nýtingu orku hér á landi, og á það jafnt við um heitt vatn sem raforku. Með bættri orkunýtni er stuðlað að betri nýtingu orkuauðlindanna og orku sem sparast má nýta til atvinnuuppbyggingar.