Fréttasafn  • Nýsköpun alls staðar - tækifærin í fjárlagafrumvarpinu

22. nóv. 2010

Samhljómur á fundi um tækifærin í fjárlagafrumvarpinu

 

Í tilefni af verkefninu ÁR NÝSKÖPUNAR efndu Samtök iðnaðarins og Hátækni- og sprotavettvangur til umræðufundar í lok Athafnaviku Innovits föstudaginn 19. nóvember, þar sem fjárlagafrumvarpið 2011 var rýnt með augum nýsköpunar. 

Tilgangur fundarins var að skoða hvort ekki felist tækifæri í fjárlagafrumvarpinu þrátt fyrir mikinn niðurskurð. Meðal þess sem var rætt voru tækifæri til að hefja endurreisn atvinnulífsins? Hvernig ætti ríkisstjórnin að forgangsraða í því takmarkaða svigrúmi sem fjárlögin fela í sér? Felast jafnvel tækifæri í niðurskurðinum? 

Fundurinn var settur upp með lifandi pallborðsumræðu og uppröðun í kaffihúsastíl með virkri þátttöku úr sal. Í framsöguerindum Orra Hauksonar, framkvæmdastjóra SI, Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra og Árna Páls Árnasonar, efnahags- og viðskiptaráðherra kom fram sterkur samhljómur um að hægt væri að bæta þjónustu og fá meiri árangur fyrir minna fé. Lykillinn að árangri væri skýr stefnumótun, aukið samstarf og samstaða um framkvæmd með heildarhagsmuni lands og þjóðar að leiðarljósi.

Frumkvæði, fjárfesting, farsæld

Orri Hauksson, framkvæmdastjóri SI kynnti Ár nýsköpunar og fjallaði um klasa og samstarfsvettvanga sem samstarfsform opinberra aðila og fyrirtækja samkvæmt aðferðafræði Michaels Porter. Straumlínu- og  klasahugsun eru lykilhugtök sem tengja saman þarfir viðskiptavina og samstarf ólíkra aðila um þróun nýrra og hagkvæmari lausna.  Ísland þarf á öllum kröftum að halda til að skapa nýja framtíð á grunni nýsköpunar, verðmætasköpunar og aukins útflutnings þar sem frumkvæði, fjárfesting og farsæld þurfa að vera leiðarljósið. Þess vegna er mikilvægt að setjumst saman við árarnar og byrjum að róa í sömu átt undir merkjum Árs nýsköpunar.

Einbeittur vilji að gera eins vel og hægt er 

Nýsköpun alls staðar Steingrímur JFjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon sagði í erindi sínu að nýsköpun fælist ekki alltaf í finna upp eitthvað nýtt heldur væri nýsköpun einnig fólgin í því að gera hlutina betur. Nefndi hann í því samhengi sérstaklega endurskipulagningu stofnanakerfisins og telur t.d. mikil sóknarfæri liggja í nýju atvinnuvegamálaráðuneyti. Hann nefndi einnig ný skattalög sem snúa að umhverfismálum og sagði markmiðið um að draga úr losun gróðurhúsaloftegunda krefjast átaks en jafnframt fela í sér tækifæri fyrir menntafólk en í undirbúningi er breyting á skattalögum sem hvetja eiga til nota metangas í stað olíu í samgöngum. Þá lagði hann áherslu á að úr fjárlagafrumvarpinu 2011 mætti lesa einbeittan vilja til gera eins vel og hægt er þrátt fyrir að ríkinu sé þröngur stakkur sniðinn. Hann lauk máli sínu með að tala um sálræna þáttinn og sagði dæmigert síðkreppuástand ríkja á Íslandi þar sem umræðan er bæði strembin og leiðinleg og nauðsynlegt sé að Íslendingar fari að líta bjartari augum til framtíðar.

Endurreisnarfjárlög ekki hrunsfjárlög

Nýsköpun alls staðar Árni PállÁrni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra fjallaði um mikilvægi þess að búa til raunhæfar áætlanir og vinna í samræmi við raunveruleikann. Hann sagði nýju fjárlögin vera endurreisnarfjárlög enda væru þau nauðsynlegur grundvöllur endurreisnar og liður í að ná tökum á aðstæðum, búa í haginn svo skuldsetning minnkaði. Skapa þurfi forsendur fyrir lægri verðbólgu og hagvexti á næstu árum. Hann segir vanta atvinnustefnu sem styður við nýsköpun en til að skapa hagvöxt þurfi fleira en náttúruháðan vöxt. Vaxtamöguleikar í sjávarútvegi og stóriðju séu takmarkaðir og því þurfi að hlúa að nýsköpun í sinni breiðustu mynd til að skapa fjölbreytileika. Hann telur fyrri atvinnustefnu hafa verið erfiða fyrir nýsköpun og nefndi í því samhengi hátt gengi sem hlotist hefði af stóriðjustefnunni og að bankar hefðu sogað til sín hæft starfsfólk úr tækni- og hugverkagreinum. Árni Páll segir okkur búa svo vel að hugverkaiðnaður sé vaxandi og mikilvægt sé að skapa fyrirtækjum tækifæri til að taka út vöxt sinn hér á landi. Nauðsynlegt sé að koma fólki af atvinnuleysisskrá til verka í þessum greinum og leggur hann í því sambandi áherslu á nauðsyn þess atvinnulífið og ríkið vinni að sameiginlegum lausnum. 

Ný hugsun, nýjar leiðir, nýjar lausnir    

Núsköpun alls staðar-pallborðÍ pallborðinu rýndu fulltrúar stjórnvalda, fyrirtækja, háskóla og stofnana fjárlagafrumvarpið 2011 frá sjónarhóli nýsköpunar á sviði, orku-, heilbrigðis- og menntamála undir stjórn Davíðs Lúðvíkssonar hjá SI og Helgu Valfells, framkvæmdastjóra Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins. Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra og Guðbjartur Hannesson, heilbrigðisráðherra sátu í pallorðinu fyrir hönd stjórnvalda. Úr atvinnulífinu komu þau Svana Helen Björnsdóttir, frkvst. Stika, Sveinbjörn Höskuldsson, frkvst, Nox Medical og Eyjólfur Guðmundsson hagfræðingur hjá CCP. Þá sátu fyrir hönd háskóla og stofnana Ari Kristinn Jónsson rektor í HR, Björn Zoëga, forstjóri Landspítala háskólasjúkrahúss og Þorsteinn Ingi Sigfússon, forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.  Fundargestum bauðst að taka virkan þátt og koma með spurningar eða ábendingar til þátttakenda.  

Rædd voru tækifæri til klasasamstarfs stjórnvalda, stofnana og fyrirtækja sem snúa í senn að því að efla og bæta þjónustuna fyrir minna fé og um leið skapa nýjar lausnir sem geta orðið verðmætar útflutningsafurðir. Framsögumenn og þátttakendur í pallborði voru sammála um að þrátt fyrir að frumvarpið feli í sér mikinn niðurskurð felast í því tækifæri til nýsköpunar. Við getum ekki haldið áfram að gera alla hluti á sama hátt og áður – við verðum einfaldlega að finna nýjar leiðir til að halda uppi þjónustunni og helst bæta hana fyrir minna fé en áður. Þetta kallar á nýja hugsun, nýjar leiðir og nýjar lausnir. Með öðrum orðum það sem við köllum NÝSKÖPUN. 

Leiðin að þessu marki væri í gegnum klasasamstarf, straumlínuhugsun og samkeppnissjóði. Hvatinn til frumkvæðis og samstarfs liggur í að færa fjármagn til nýsköpunar og þróunar úr föstum fjárlögum til stofnana í samkeppnissjóði þar sem forgangsröðun verkefna er tengd við árangurslíkur í formi verðmætasköpunar og gildis fyrir land og þjóð.  Næstu skref væru því falin í því að færa fjármagn af föstum fjárlögum í samkeppnisjóði á borð við Tækniþróunarsjóð og Rannsóknasjóð, m.a. til að virkja samstarf á lykilsviðum s.s. á heilbrigðissviðinu, menntasviðinu og orkusviðinu í formi klasasamstarfs.