Fréttasafn  • Raforka

29. nóv. 2010

Meiri hækkun á dreifingu raforku en raforkuverði

Dreifing raforku hefur hækkað meira í verði en raforka frá árinu 2005, þegar samkeppni í orkusölu komst á. Þetta kemur fram í  athugun sem Efla verkfræðistofa hefur gert fyrir Samtök iðnaðarins.

Í skýrslunni eru teknar saman upplýsingar um þróun raforkuverðs á almennum markaði frá því raforkulögin tóku gildi í janúar 2005, en þá var samkeppni innleidd  í raforkusölu. Skoðuð eru verð í raforkusölu annars vegar og hins vegar flutningi og dreifingu.  Níu fyrirtæki í iðnaði voru skoðuð og litið til gjaldskráa allra fyrirtækja sem eru starfandi á raforkumarkaði.  

Bryndís Skúladóttir, forstöðumaður umhverfismála hjá SI segir niðurstöður sýna að dreifingarkostnaður hefur hækkað meira en raforkukostnaður á tímabilinu. „Mikill munur er á verði milli dreifiveitusvæða. Dreifing raforku er sérleyfisstarfsemi  og fyrirtækin fá úthlutað tekjuramma á hverju ári af Orkustofnun sem hefur eftirlit með þessari starfsemi.“ Bryndís segir þessa þróun vekja upp spurningar um hvort tekjurammar hafi virkað eins og til var ætlast.

„Við kerfisbreytinguna 2005 breyttust gjaldskrár orkufyrirtækjanna því í stað einnar gjaldskrár áður þarf tvær gjaldskrár, aðra fyrir sölu og hina fyrir flutning og dreifingu. Fyrirtækin notuðu tækifærið og endurskoðuðu gjaldskrárnar og m.a. duttu út taxtar sem hentuðu sumri starfsemi í iðnaði og raforkuverð hækkaði nokkuð hjá þeim notendum“ segir Bryndís .

Í skýrslunni er bent á nokkur atriði um breytingar sem gætu verið til hagsbóta fyrir iðnfyrirtæki og aðra raforkunotendur.

  • Tekjurammi dreifingar virðist veita dreifiveitum takmarkað aðhald þar sem verðþróun hefur verið mismunandi og verulegur munur er á gjaldskrám. Mikilvægt væri því að kanna hvort ekki sé hægt að virkja betur tekjurammann til veita meira aðhald að rekstri dreifiveitna.
  • Dreifiveitur bjóða ólíka taxta og mismikinn sveigjanleiki varðandi val á taxta. Notendur geta ekki valið dreifiveitu og eru því bundnir af gjaldskrám á sínu svæði.  Í skýrslunni er spurt hvort samræma eigi taxta milli svæða.
  • Mismunandi skilgreiningar eru á sölutoppum og slíkt gerir notendum erfitt fyrir með að bera saman kostnað á milli veitufyrirtækja sem hamlar samkeppni.
  • Tímaháðir taxtar fyrir sölu á raforku og dreifingu spila ekki alltaf saman og þá er erfitt fyrir notendur að ná fram hagræðingu með því að hliðra til notkun. Það getur verið flókið að átta sig á því hvernig hagkvæmast er að haga notkuninni ef lægsta verðið er ekki á sama tíma í raforkusölu og í dreifingu.
  • Mikill munur er á kostnaði við kaup á dreifingu á raforku milli þétt- og dreifbýlis vegna minnkandi vægis dreifbýlisframlags hins opinbera.
  • Sölufyrirtæki raforku hafa lagt áherslu á að leiðbeina notendum um hagstætt  taxtaval bæði í raforkusölu og dreifingu. Notendur þurfa að vera vakandi fyrir þjónustu sölufyrirtækjanna og nýta sér hana.
  • Sölufyrirtæki raforku birta ekki öll formlega gjaldskrár, nema orkutaxta sem litlir notendur nýta aðallega. Það gerir samanburð á orkuverðum erfiðan.

Að sögn Bryndísar munu Samtök iðnaðarins skoða þessi atriði með hlutaðeigandi aðilum. Skýrsluna má nálgast hér.