Fréttasafn  • Mannvirkjagerd

15. des. 2010

Ný mannvirkjalög samþykkt

Ný mannvirkjalög hafa verið samþykkt á Alþingi. Lögin öðlast gildi 1. janúar 2011. Ljóst er að vinnu við nýja byggingareglugerð verður ekki lokið fyrir gildistökuna eins og áætlað var. Á meðan gildir núverandi byggingareglugerð þegar hún á við. 

Með gildistöku laganna verður sett á stofn svokölluð Mannvirkjastofnun sem verður umhverfisráðherra til aðstoðar. Meðal hlutverka stofnunarinnar er að annast gerð leiðbeininga, verklagsreglna og skoðunarhandbóka, hafa markaðseftirlit með byggingarvörum, annast aðgengismál, starfrækja rafrænt gagnasafn um mannvirki, allt starf Brunamálastofnunar, gefa út starfsleyfi byggingastjóra, hönnuða, iðnmeistara og eftirlitsstofa o.s.frv., rannsóknir á göllum og skemmdum mannvirkja.

Bygginganefndir sveitafélaga verða lagðar af, en þó er sveitastjórnum heimilt að starfrækja byggingarnefnd með sérstakri samþykkt.

Sveitafélögum er heimilt að fela löggiltum skoðunarstofum úttektir. Þessar skoðunarstofur skulu fá löggildingu Mannvirkjastofnunar.

Þá er ábyrgð eiganda mannvirkis skýrari en í fyrri lögum. Nú verður eigandi að ráða sérstakan hönnunarstjóra, sem ekki má jafnframt vera hönnuður að viðkomandi mannvirki. Það sama á við byggingarstjóra, en þeir mega ekki jafnframt vera iðnmeistarar viðkomandi verkhluta. Undanþága frá þessu eru minni mannvirki svo sem bílskúrar eða viðbyggingar við íbúðar- eða frístundahús.

Gerð er krafa um að hönnuðir, byggingastjórar og iðnmeistarar hafi virkt gæðastjórnunarkerfi. Iðnmeistarar sem fram að þessu hafa haft réttindi til að skrifa upp á sem byggingastjórar halda þeim réttindum með því að sína hæfni sína í gegnum gæðastjórnunarkerfi sitt.