Fréttasafn



22. des. 2010

Verðbólga komin niður í verðbólgumarkmið

Verðbólga mælist nú 2,5% sem jafngildir verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Þetta er í fyrsta skipti síðan í apríl 2004 sem þessu marki er náð. Vísitala neysluverðs í desember hækkaði um 0,33% samkvæmt tölum Hagstofunnar og skýrist að mestu leyti af hækkun bensínverðs.

Bjarni Már Gylfason, hagfræðingur SI, segir að vissulega sé ánægjulegt að sjá verðbólguna fara lækkandi en þessi þróun komi ekki á óvart í ljósi þess mikla slaka sem enn er í efnahagslífinu. „Vísitala neysluverðs er nánast óbreytt frá í vor og ef horft er framhjá margvíslegum opinberum hækkunum má segja að hagkerfið sé komið í verðhjöðnun. Verðbólga hefur verið að dragast mjög hratt saman á þessu ári samhliða verulegum vaxtalækkunum. Hins vegar hafa vextir lækkað hægar en verðbólga. Þetta skýtur skökku við í ljósi veikrar stöðu efnahagslífsins en gefur um leið tilefni til að ætla að vextir muni lækka talsvert meira á næstunni“, segir Bjarni. 

Verðbólguvæntingar á skuldabréfamarkaði gefa sterklega til kynna að búist sé við að verðbólgan verði lág næstu misserin. „Á meðan krónan helst stöðug í krafti gjaldeyrishafta er engin ástæða til að ætla að hún veikist með tilsvarandi verðbólgu líkt og verið hefur undanfarin tvö ár. Að sama skapi er fátt sem bendir til að eftirspurn í hagkerfinu taki við sér í því mæli sem skapað getur svo mikla þenslu að verðbólga fari úr böndunum. Stærsti óvissuþátturinn núna er líklega tengdur vinnumarkaðnum og kjaraviðræðum sem eru í gangi. Efnahagslífið hefur ekki burði til að rísa undir verulegum launahækkunum. Slíkt mun ekki skila almenningi auknum kaupmætti til lengdar við þau efnahagsskilyrði sem nú eru. Forsenda aukins kaupmáttar er aukin verðmætasköpun og framleiðni. Launahækkanir sem orsakast af slíku valda ekki verðbólgu og skila raunverulegri kaupmáttaraukningu. Til að svo megi verði þarf hins vegar kröftugan viðsnúning í atvinnulífinu og stórauknar fjárfestingar. Einhver óvissa er líka tengd mögulegri slökun á gjaldeyrishöftum en ég býst við að stjórnvöld  fari  varlega í þeim efnum“, segir Bjarni að lokum.