Fréttasafn



  • Skólakrakkar

11. jan. 2011

Hlúum að menntun sem leggur til verðmæti

Löngu er viðurkennt uppbyggilegt samhengi menntunar, framleiðni og velferðar. Góð menntun elur af sér dýrmæt störf sem auka hagsæld einstaklinga og samfélags.

Á umbrotatímum er mikilvægt að forgangsraða málaflokkum; að veita fjármagni til þeirra hluta sem líklegastir eru til að skila því aftur, hratt og vel. Menntun sem atvinnulífið hefur þörf fyrir á því að setja í öndvegi þegar kreppir að.

Undanfarin ár hafa samtök í atvinnulífinu, m.a. Samtök iðnaðarins, beitt sér fyrir því og þráfaldlega bent á að fjölga bæri iðnmenntuðum og tæknimenntuðum. Slíkt nám á að vera sérstakt áhugamál stjórnvaldsins. Af hverju? Vegna þess að fjármagn, sem varið er til slíkrar menntunar, skapar verðmæti hratt og vel. Fólk með iðn- og tæknimenntun er mörgum öðrum líklegra til að leggja mikið til nauðsynlegrar uppbyggingar í atvinnulífinu.

Um þessar mundir birta nokkur öflug fyrirtæki boðskap með fyrirsögninni VIÐ VILJUM VAXA Á ÍSLANDI. Þau vilja gjarnan leggja sitt til svo að endurreisn hér á landi megi takast hratt og vel. Ósk þeirra er m.a. sú að stjórnvöld greiði leið þeirrar menntunar sem sannanlega eykur hagvöxt. Skortur á iðn- og tæknimenntuðu fólki stendur vexti fyrirtækja fyrir þrifum.

Iðnmenntun, tæknifræði, verkfræði, tölvunarfræði og skyldar greinar er góð menntun í öllum skilningi. Nefna má þetta:

  • Fólk með iðn- og tæknimenntun fær tækifæri til skapandi og skemmtilegra starfa.

  • Störfin eru vel launuð.

  • Samneyslan nýtur góðs af sköttum einstaklinga og fyrirtækja.

  • Fyrirtækin ná að vaxa á Íslandi en þurfa ekki að flytja starfsemi að sumu eða öllu leyti til útlanda.

Að undanförnu hafa verið til umræðu dæmi um illskiljanlegan ofvöxt í menntakerfinu. Tímabært er að mynda samstöðu um að auka nýtni í menntakerfinu og byggja það upp með endurreisn fyrirtækjanna í huga. Verðugt og skynsamlegt væri að stjórnvöld og atvinnulíf settu sér markmið um að fjölga iðn- og tæknimenntuðum um 50% á næstu fimm árum.

Ingi Bogi Bogason forstöðumaður menntunar og mannauðs
Grein birt í Fréttablaðinu 4. janúar 2011