Fréttasafn



  • Actavis opnar nýja verksmiðju 2011

17. jan. 2011

Verksmiðja Actavis í Hafnarfirði stækkar um helming

Actavis á Íslandi hefur lokið við að stækka lyfjaverksmiðju sína í Hafnarfirði og eykst framleiðslugetan við það úr einum milljarði taflna í einn og hálfan milljarð taflna á ári. Verksmiðjan var opnuð formlega sl. föstudag að viðstöddum forseta Íslands, herra Ólafi Ragnari Grímssyni.

Starfsfólki Actavis fjölgaði um 100 í fyrra, þar af 70 vegna stækkunar verksmiðjunnar. Um 700 manns starfa nú hjá Actavis á Íslandi. Unnið er allan sólarhringinn í verksmiðjunni og er hún fullbókuð sjö mánuði fram í tímann; það þýðir að öll framleiðsla næstu sjö mánuðina er þegar seld.

Verksmiðjan framleiðir töflur og hylki, en samvinna þróunarmiðstöðvar Actavis í Hafnarfirði og verksmiðjunnar sem nú er að stækka þýðir að hér á landi eru mörg af nýjustu og verðmætustu lyfjum félagsins framleidd og flutt út. Mest er flutt út til Evrópu. Heildarkostnaður við stækkun verksmiðjunnar nemur um 1,2 milljörðum króna.

Tæki og tól í verksmiðjunni koma frá Bandaríkjunum og Evrópu, en verktakar við bygginguna eru íslenskir. Þótt byggingin sé mjög sérhæfð, hefur ekki þurft að kaupa sérhæfða ráðgjöf erlendis frá til að sinna verkefninu; sú sérfræðiþekking er til staðar innan Actavis og hjá íslenskum verkfræðistofum. Rík áhersla er lögð á gæðamál og uppfyllir verksmiðjan í Hafnarfirði kröfur um góða framleiðsluhætti í lyfjagerð (Good Manufacturing Practice). Actavis á Íslandi hefur jafnframt hlotið ISO 14001 vottun fyrir umhverfisstjórnun og OHSAS 18001 vottun til staðfestingar á því að félagið hafi staðist úttekt á heilsu– og öryggisstjórnunarkerfi sínu á Íslandi.

Útflutningsverðmæti lyfja sem framleidd voru í verksmiðju Actavis í Hafnarfirði í fyrra, námu um 12 milljörðum króna. Til samanburðar má geta þess að fjárlög 2010 gerðu ráð fyrir tæplega 9 milljörðum króna til reksturs Háskóla Íslands. Lyfjaverksmiðjur Actavis eru alls 14 í 12 löndum. Starfsmenn Actavis samsteypunnar eru um 10.000 í yfir 40 löndum. Heildarvelta samstæðunnar nam um 1.7 milljörðum evra í fyrra.