Fréttasafn



  • Kaeligatt1

24. jan. 2011

Ný upplýsingaveita hjá Matís – Kæligátt

 

Til að tryggja betri gæði og verðmætari vörur þarf að gæta að verklagi og umgengni um hráefni og vanda til við meðhöndlun, vinnslu og flutning fiskafurða. Kæling allt frá því að fiskur er dreginn úr sjó og á öllum stigum virðiskeðjunnar er lykilatriði til að viðhalda hámarksgæðum eins lengi og unnt er.

Kæligátt er ný upplýsingaveita Matís með hagnýtum leiðbeiningum og umfjöllun um kælingu og meðhöndlun á fiski á öllum stigum virðiskeðjunnar frá miðum á markað. Hún er bæði á íslensku (http://www.kaeligatt.is/) og ensku (http://www.chillfish.net/). Leiðbeiningarnar eru settar fram á notendavænan hátt og eiga vonandi eftir að nýtast sjómönnum, framleiðendum og flutningsaðilum og einnig koma að gagni við fræðslu og námskeiðahald á þessu sviði.

Leiðbeiningarnar byggja á rannsóknum sem framkvæmdar hafa verið innan kæliverkefnanna Chill on (www.chill-on.com/), Hermunar kæliferla (http://www.matis.is/verkefni/nr/2801) og Kælibótar sem styrkt voru af AVS, Tækniþróunarsjóði og Rannsóknasjóði Háskóla Íslands og einnig á reglugerðum frá Matvælastofnun. Fjórir doktorsnemar og þrír meistaraprófsnemar unnu í verkefnunum og starfsfólk Matís er fyrsti eða annar höfundur í 10 vísindagreinum og fleiri eru væntanlegar. Einnig hafa niðurstöður margra tilrauna verið birtar sem Matís skýrslur og er aðgengi að þeim mjög auðvelt á http://www.kaeligatt.is/.

Meðal annars hafa rannsóknir Matís sýnt fram á að sjóflutningur er raunhæfur möguleiki fyrir íslenska ferskfiskframleiðendur. Þetta byggir þó á því að hitastýring í gámum sé eins og best verður á kosið. Tölvuvædd varma- og straumfræði hefur verið hagnýtt til þróunar á nýjum endurbættum frauðplastkössum sem geta lengt bæði ferskleikatímabil og geymsluþol ferskra afurða í flugflutningskeðjum um tvo daga. Veruleg þróun hefur orðið í hraðvirkum örverugreiningum og nú er svo komið að unnt er að greina ýmsa sýkla og skemmdarörverur á mun skemmri tíma en áður var mögulegt sem ætti að geta komið að góðum notum í matvælaiðnaðinum. Þessi þróun gefur möguleika á notkun spálíkana sem voru þróuð í Chill-on verkefninu í samvinnu við Wessex Institute of Technology (WIT, UK). Mögulegt er að spá fyrir um geymsluþol fyrir ferskar þorskafurðir á hitastigsbilinu frá -1°C til +11°C út frá fjölda skemmdarörvera og þekktrar hitasögu. Einnig voru þróuð líkön sem spá vexti helstu sjúkdómsvaldandi baktería við svipaðar aðstæður.